Noir Nafn: Noir
Framleiðandi: Victor Entertainment
Útgáfuár: 2001
Fjöldi þátta: 26
Lengd þáttar: Ca. 25 min

Noir er það sem að fólk myndi kalla launmorðingjadrama. Sagan fléttist í kringum Mireille Bouquet, einum af hæfileikaríkustu launmorðingjum undirheimana. Þá daga sem hún er ekki við ‘vinnu’ heldur hún sig í íbúð sinni í París. Einn daginn fær hún, eins og svo marga daga, rafpóst sem inniheldur ýmsar upplýsingar um nýjasta fórnarlamb hennar, Kirika Yuumura, ásamt stuttri melódíu og skilaboðunum ‘Join me on a pilagrimage to the past’. Eins og sönnum launmorðingja sæmir heldur Mireille austur til Japans til þess að taka út þessa ‘saklausu’ skólastelpu, en hún er ekki ein um að vera á höttunum eftir hinni japönsku ungfrú, því að á leið Kiriku úr skólanum ráðast óþekktir menn á hana. En saklausa skólastelpan er ekki eins saklaus og útlitið segir til um, því að svo virðist sem að í henni leynast ýmsar bardagakempur og alveg augljóst er að hún getur tekið vopnaða jakkafatamenn í aðra nösina, án mikillar fyrirhafnar. Svo virðist að Kirika hafi í fórum sínum vasaúr sem spilar sömu melódíu og kom í póstinum til Mireille, en það úr var einmitt í eigu föður Mireille. Sökum forvitni og annara persónulegra ástæðna ákveður Mireille að hlífa Kiriku og tekur hana upp á arminn þar til botn kemst í málið, hvernig Kirika komst yfir vasaúrið og hvort hún tengist þeim sem að myrtu foreldra henna á heimili þeirra á Corsicu. Saman mynda þær svo launmorðingjateymið ‘Noir’.

Það fyrsta sem maður tekur eftir í seríunni er án efa tónlistin. Kajiura Yuki nær að skapa frábært andrúmsloft með stórkostlegri bakgrunnstónlist og lög eins og Salva Nos, Canta Per Me og Melodie yfirgefa huga manns ekki fyrr en löngu eftir að maður hefur klárað að horfa á seríuna. Kajiura Yuki er orðin vel þekkt fyrir ágætis tónlistarsmíð, en hún samdi líka tónlistina fyrir .hack//Sign og .hack//Liminality, tvær mjög góðar seríur sem að komu út á árinu.
Það er lítið hægt að kvarta undan teikningunum í þáttunum, allt rennur eins og þunnt smjörlag á ristuðu brauði og myndast út frá stílnum svosem ágæt hasaratriði, sem að þó mætti laga með hjálp CG (þeir sem hafa séð Vandread eða Blue Submarine ættu að kannast við það sem ég er að minnast á hér). Bakgrunnar eru í flesta staði mjög vel vandaðir, en í seríunni ferðast þær Kirika og Mireille út um allan heim nánast svo að það getur reynt á bakgrunnsartistana að teikna upp menningu hvers staðar á réttan hátt, t.d. leist mér mjög vel á hvernig dreifbýli Ítalíu leit út, sem og París.
Persónusköpunin er hins vegar eitthvað sem ég var ekkert svo sáttur með, en það sem að einkennir seríuna hvað mest er hversu daufar persónur eru í henni. Kirika er nokkuð heiladauð, og svipaða sögu má segja af Mireille, en þó glæðir eitthvað upp hjá henni þegar söguþráðurinn í kringum fjölskyldu hennar fer að afhjúpast meir og meir. Sú persóna sem er með hvað mesta ‘persónu’ í sér er án efa Chloe, kaldrifjuð en þó barnaleg á viðeigandi stöðum. Nokkurn veginn fullkominn launmorðingi, þykir mér.
Söguþráðurinn sjálfur hefur örlitla feila á sér, enda rosalega flókinn í sjálfu sér, sérstaklega þegar það kemur að því að tengja ónefnd samtök við stúlkurnar, en þegar á heildina er litið þá er ég mjög sáttur við seríuna í heild sinni og mæli með henni fyrir hvern þann sem að vill drepa tímann, það er þegar hún loks kemur út hér á Vesturlöndum, en þess er vænst á næsta ári, ef allt gengur í haginn hjá ADV Films.

Villi-