http://www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1115708
Fótboltatölvuleikur bannaður í Kína
Stjórnvöld í Kína hafa bannað tölvuleikinn vinsæla Football Manager 2005 af því að í honum er talað um Hong Kong og Taívan sem sjálfstæð ríki en þau ekki sögð tilheyra Kína.
Í tilkynningu frá kínverska menningarmálaráðuneytinu segir að í leiknum sé að finna efni sem sé skaðlegt fullveldi Kína, brjóti gegn kínverskum lögum á alvarlegan hátt og að leiknum hafi verið mótmælt mjög harkalega af þeim sem spili tölvuleiki í Kína.
Leikurinn sem kom út 5. nóvember er því ekki seldur í Kína og engin kínversk útgáfa er til af honum. Þá hefur starfsmönnum á vegum ríkisins verið gert að leita að leiknum á Netinu, á netkaffihúsum og á mörkuðum sem selja sjóræningjaútgáfur til að koma í veg fyrir að eintök komist í umferð.
Verslunareigendur sem reyna að selja leikinn verða sektaðir um 225 þúsund krónur og missa verslunarleyfið. Netþjónustufyrirtæki sem ekki koma í veg fyrir að netnotendur hlaði niður leiknum af Netinu geta átt von á því að fá allt að 110 þúsund króna sekt.
Talsmaður tölvuleikjafyrirtækisins Sports Interactive Ltd., sem gefur leikinn út, segir að sú útgáfa leiksins sem kínversk stjórnvöld vísi til sé gerð fyrir enskumælandi notendur og að hjá fyrirtækinu sé verið að vinna að kínverskri útgáfu þar sem vísað verði til ríkja samkvæmt kínverskum lögum.
Tek það fram að þetta er c/p af www.mbl.is