Byrjun
…og þar með varð ég ráðinn knattspyrnustjóri Middlesbrough. Ég kyssti stjórnarformanninn - Steve Gibson á ennið og hann óskaði mér velfarnaðar í starfi. Ég svaraði síðan nokkrum spurningum á blaðamannafundi sem var haldin daginn eftir að ég skrifaði undir samninginn. En þetta var eins árs samningur og fékk ég ásættanleg laun. Ég fór á kostum á blaðamannafundinum en þar var ég undir mikilli pressu. Blaðamenn sem og allur heimurinn höfðu ekki mikla trú á mér og mínum hæfileikum en ég náði að svara öllum spurningum þeirra….á réttan hátt. Eftir blaðamannafundinn gaf ég nokkrar eiginhandaáritanir. Þar voru aðallega ungir krakkar mættir en þar sló ég enn og aftur í gegn. Ég sagði við krakkana að nú yrði eitthvað öðruvísi gert. Ég lagði til að í staðinn að ég gæfi þeim eiginhandaáritanir að þá myndi ég gefa þeim öllum hæ-fæv. Það er óhætt að segja að það gekk vel. Krakkarnir voru fyrstir til að elska mig. Fyrstu dagarnir höfðu byrjað vel og ég var bjartsýnn. Ég og stjórnarformaðurinn Steve Gibson virtust vera einu tveir mennirnir í öllum bænum (og jafnvel heiminum) sem trúðum að ég gæti náð góðum árangri með þennann klúbb. Ég og Steve áttum löng símtöl á kvöldin. Þar ræddum við liðið og framtíð mína. Steve fullvissaði mig um að hann hefði trú á mér og ég myndi fá um 7 miljónir til að eyða í leikmenn.
Í þessu tilfelli fannst mér við ég vera með nógu góðan hóp. Ég hafði hinsvegar áhyggjur af því að vera aðeins með tvo markverði í aðalliðinu. Því keypti ég Líbis Andréas Arenas, átján ára kólúmbískan markmann. Þau kaup áttu eftir að reynast mér ótrúlega vel. Annars var hópurinn nokkuð sterkur. Fín breidd og góðir leikmenn. Ungir og efnilegir leikmenn í bland við nokkra reynslubolta.
Við spiluðum sex æfingarleiki. Úrslitin skipta kannski ekki öllu máli en ég stjórnaði liðinu til sigurs í fimm leikjum en tapaði einum leik. Það var ágætis leikur gegn Porto sem tapaðist 1-2.
Haustið
Fyrsti leikur tímabilsins var gegn Newcastle í deildinni. Sjónvarpsleikur sem var á St.James Park. Fjölmiðlar töluðu mikið um mig og mitt lið og flestir voru á því að Boro myndi fá skell. Pressan var mikil en ég losaði um pressuna með því að tala við sjálfan mig og segja brandara. Steve Harrison, aðstoðar-knattspyrnustjóri hló af hverjum einasta brandara sem ég sagði. Líka af djóknum um konuna hans. Fínn gaur, Steve.
Ég stillti upp 4-4-2 kerfi (sem ég notaði svo yfir allt tímabilið, með ýmsum áherslubreytingum) og spilaði til sigurs. Middlesbrough vann góðan útisigur og ég var ánægður. Draumabyrjun þegar James Morrison (bráðefnilegur gutti, aðeins átján ára) skoraði gull af marki á fjórðu mínútu. Fékk boltann út á kanti, og tók bakvörð Newcastle á og lagði síðan boltann í fjærhornið. Newcastle áttu sínar tilraunir til að jafna en við stjórnuðum leiknum og Jimmy Floyd Hasselbaink kláraði síðan dæmið með góðu marki í byrjun síðari hálfleiks.
Nú hafði ég sannað mig aðeins og fleiri voru farnir að hafa trú á mér en ég var hinsvegar spakur á blaðamannafundum eftir leiki. Ég sagði að þetta væri bara einn leikur. Liðið hélt áfram að spila vel og næstu tveir leikir voru sigrar gegn Wigan og Fulham. James Morrison hélt áfram að standa sig vel og það kom mér mjög á óvart. Þessi átján ára gaur var fyrsti kostur í hægri-kants stöðuna út tímabilið.
Eftir þessa góða byrjun kom slæmt tímabil. Liðið tapaði fjórum leikjum í röð. Þar á meðal einum evrópuleik. Við töpuðum gegn Man Utd 2-5 en þar lenti ég í þvílíkum markvarðar-vandræðum. Tveir markmenn voru meiddir og sá þriðji var í landsleikjafríi. Því þurfti ég að setja einhvern 17 ára gaur í markið. Hann stóð sig illa enda erfitt fyrir hann að koma beint inn í liðið gegn ManU á old trafford. Mark Swarcher aðalmarkvörður liðsins var alltaf meiddur svo ég nennti ekki að hafa hann sem aðalmarkvörð. Stanslaust vesen. Mark stóð sig vel, engin spurning um það en það voru að minnsta kosti tveir leikir í byrjun tímabils sem ég þurfti að taka hann út af vellinum vegna meiðsla. Svo var það orðið þannig að alltaf þegar hann sneri til baka úr meiðslum meiddist hann yfirleitt strax aftur. Ég gafst upp. Svo ég gerði Líbis að aðalmarkverði og stóð hann sig vel yfir tímabilið.
Í Euro Cup komumst við áfram úr fyrstu umferð. Tapaðist eins og áður segir fyrri leikurinn en við unnum 5-0 heima og flugum áfram í riðlakeppnina. Þar lenti ég í sæmilega sterkum riðli. Lokomotiv Moscov frá Rússlandi og Auxerre frá Frakklandi voru sterkustu liðin. Boro vann fyrstu tvo leikina í riðlinum og þar af leiðandi tryggðum við okkur áfram strax. Ég notaði því leikmenn sem höfðu lítið fengið að spila á tímabilinu, í þessum seinustu tveim leikjum en það kom ekki að sök, ég fékk þrjú stig út úr þeim leikjum.
Þegar fór að líða á veturinn fóru stigin í deildinni að standa svolítið á sér. Fram að áramótum var þetta búið að vera svona upp og niður en liðið var að flakka á milli 8-12 sæti. Við vorum hinsvegar að spila frábæran bolta í deildarbikarnum og evrópukeppninni. Það kom held held ég örlítið niður á spilamennskunni í deildinni. Liðið átti samt tvo leiki til góða í deildinni svo ég var bjartsýnn á topp8 sem var markmiðið mitt í upphafi tímabils. Nú voru allar gagnrýnisraddir þagnaðar. Liðið hafði spilað vel og ég hafði farið á kostum í öllum viðtölum. Ég var á góðri leið með að vera uppáhald stuðningsmannana. Ég var að minnsta kosti í uppáhaldi hjá Steve Harrison, aðstoðarmanni mínum. Hann hafði mikið álit á mér og sagði mér í sífellu að ég væri snillingur. Steve bauð mér á hverjum sunnudegi (nema ef það var leikur) í kaffi og kökur heima hjá sér. Í raun bauð hann mér svo oft í kaffi og bíó og ég veit ekki hvað að ég átti alltaf erfiðara með að segja nei við hann. Svo ég fór af og til í kaffi til hans til að jafna þetta út. Konan hans kann að baka, það má hún eiga.
Undarlega jólaboðið
Í League Cup (eða deildarbikarnum) vann ég Man City í 3.umferð. Leikurinn fór í vító og var ég brjálaður enda höfðum við endalaus færi til að klára leikinn. Við sigruðum þó í vítaspyrnukeppninni þar sem George Boateng tryggði okkur farmiðann í fjórðu umferð. Þar mættum við Barnsley og sendi ég út á völlinn sóknarlið. Ég ætlaði að slátra þessum leik og gefa stuðningsmönnunum það sem þeir vildu. Leikurinn endaði 4-1 (þeir minnkuðu muninn á síðustu mínútunni) og liðið spilaði fantavel. Boro sigraði síðan Fulham í átta-liða úrslitum í desember mánuði. Við vorum mun betra liðið í leiknum og Yakubu átti stórleik, skoraði tvö og lagði upp eitt. Yakubu var ótrúlegur á tímabilinu og ég fór fljótt að elska allt við hann. Hann kláraði færin sín vel, gat lagt upp fyrir aðra, barðist mikið og inn á milli skoraði hann guðdómlega falleg mörk. Það var einmitt í næsta leik eftir þennan bikarleik sem hann skoraði ótrúlegt mark. Þetta var leikur gegn Tottenham og við vorum undir eitt-núll. Það voru 10 mínútur eftir þegar Yakubu fékk boltann sirca 20 metrum fyrir utan teiginn. Hann brunaði af stað, fór framhjá einum manni en var kominn eiginlega vinstra megin í teiginn og með hliðina að markinu en þó bombaði hann með vinstri banana-skoti efst í fjærhornið. Ég grét af gleði og Steve Harrison faðmaði sjúkraþjálfarann okkar. Þetta var valið sem eitt af mörkum tímabils og endaði í öðru sæti þar.
Við fórum ágætlega út úr jólatörninni, vorum enn um miðja deild. Það fara þó aðrar sögur um ágæti jólaboðsins sem var haldið heima hjá George Boateng. Ég og Steve Harrison höfðum planað að þetta yrði bara rólegt, playstation mót og léttar veitingar. En ég veit ekki hvað skeði. Það varð allt klikkað. Ég hringdi í Steve þegar boðið var nýbyrjuð og þá var allt í rólega kantinum. Svo þegar ég kom, ég var aðeins of seinn - var greinlega komið áfengi í menn. Ég leit á sófann og þar sátu Oasis bræður. Á milli þeirra sat kona Steve Harrison, nakin. Ég var eitt stórt spurningarmerki í framan.
Í janúar átti ég enn um 5 miljónir í “season-budget” og hugðist ég skoða þann möguleika að kaupa leikmenn til að styrkja liðið. Ég reyndi að fá nokkra leikmenn en það gekk ekki eftir. Leikmennirnir voru annað hvort of dýrir eða höfðu ekki áhuga á að koma til að spila með ‘Boro. Ég skoðaði einnig leikmenn sem voru að missa samninginn sinn næsta sumar en það var ógurlega fátt sem heillaði mig þar. Ég fékk samt nokkra unga og efnilega leikmenn til mín á Bosman sem ég fæ næsta sumar. Svo ég kaus að vera hliðhollur mínu liði. Ég fékk Tony MacMahon aftur úr láni og Danny Graham þar að auki. Ég hafði fylgst vel með þeim þar sem þeir voru að spila vel í Championship deildinni. Ég kaus svo enn frekar að senda þá ekki aftur út á lán heldur halda þeim og nota þá í mínu liði. Danny var farinn að vera reglulegur byrjunarliðsmaður í U-21 árs landsliði Englands. Hann skoraði 14 mörk í 25 leikjum fyrir Sheff Wed og ég var mjög hrifinn af honum. Nú var hann loksins tilbúinn til að spila fyrir aðallið ’Boro.
Massimo Maccarone hafði átt ömurlegt tímabil og ég var kominn með upp í kok af honum. Þegar hann fór síðan í fjölmiðla og kvartaði yfir að fá ekki að spila meira fékk ég meira en nóg. Ég húðskammaði hann í fjölmiðlum og lét hann heyra það á æfingu. Það varð til þess að hann bað mig afsökunar og allt liðið. Ég fyrirgaf honum en setti hann í varaliðið. Þar hitti hann annan framherja, Szilard Nemeth. Nemeth hafði spilað vel í varaliðinu og ég gaf honum nokkra leiki í aðalliðinu þar sem hann spilaði ágætlega. Ég setti hann hinsvegar í varaliðið og á sölulista þegar ég hitti hann út í sjoppu. Þar var hann að kaupa sér sígarettur og bland í poka fyrir 4 pund. Það líð ég ekki í mínu liði. Eftir þetta var Nemeth kallaður Salem Nemeth. En það er önnur saga. Nú var ég með fjóra framherja en þar sem Yakubu var að spila á Afríkumótinu og Hasseilbank var meiddur í þrjár vikur fékk Danny Graham að labba beint inn í byrjunarliðið í leik gegn Everton í lok janúar.
Við lentum undir eitt - núll og þetta leit ekki vel út. En Mark Viduka hafði verið heitur seinustu vikur og var loksins farinn að skora mörk reglulega. Hann sýndi hversu öflugur hann var með því að jafna leikinn. Ég sótti og sótti eftir það og stjórnaði leiknum. Ekkert gekk eftir og inn vildi boltinn ekki. Ég var orðinn mjög pirraður og í hita leiksins náði ég að mógða bæði dómarann og David Moeys, þjálfara Everton. Ég fór síðan yfir strikið þegar ég móðgaði línuvörðinn hressilega. Ég kallaði hann feitabollu og fékk rautt spjald fyrir. Þetta var þrem mínútum fyrir leikslok. Ég sat inn í klefa og neitaði að fara upp í stúku. Ég horfði á leikinn í litlu sjónvarpi inn í klefanum. Þar sá ég þegar Mark Viduka tryggði okkur sigurinn með frábæru skallamarki fjórum mínútum eftir venjulegan leiktíma. Danny Graham lagði markið upp með góðri fyrirgjöf og ég hrósaði liðinu eftir leik fyrir að klára leikinn. Ég hrósaði Danny einnig mikið fyrir að standa sig svona vel í sínum fyrsta leik.
Andrúmsloftið í hópnum varð alltaf betra og betra með hverjum deginum og það myndaðist sannkallað fjölskyldu andrúmsloft. Ég átti mörg góð móment með liðinu, bæði innan sem utan vallar. Ég myndaði gott samband við alla strákana. Ég og George Boateng vorum oft að grallast. Það var mjög gaman hjá okkur. Ég gaf Boateng viðurnefnið Búmerangið…og vakti það mikla lukku á meðal strákanna. Steve Harrison fékk næstum því hjarta-áfall þegar ég sagði fyrst þennan brandara - svo mikið hló hann.
Koma lóunnar til landsins síðla vetrar er öruggt merki um að vorið sé í nánd
Liðið vann Crewe og West Ham í FA Cup en tapaði fyrir Aston Villa 4-3 í fimmtu umferð í leik sem ég kýs að tala ekki um. Í undanúrslitum League Cup dróst ég gegn Chelsea. Ég var þvílíkt spenntur. Ég og Jose Mourinho áttum í miklum rifrildum í fjölmiðlum og flestir spáðu Chelsea sigri.
Fyrri leikurinn var á troðfullum Riverside Stadium, heimavelli mínum. Ég spilaði djarft til að sýna að liðið mitt er gott og til að sýna að Boro þorir að spila djarft, líka gegn Chelsea. Það voru samt Chelsea sem stjórnuðu leiknum í fyrri hálfleik og Eiður Smári kom þeim yfir eftir hálftíma-leik. Þá breytti ég aðeins leikskipulaginu, lét Boateng og Mendieta koma aðeins aftar til að sækja boltann og reyndi að koma Yakubu inn í leikinn. Það gekk strax betur og við fórum að skapa okkur færi. Ég var orðinn bjartsýnn á að ná að jafna leikinn. Því var það eins og að fá blauta tusku í andlitið þegar Michael Essien skoraði fyrir Chelsea af 30-metra færi í byrjun síðari hálfleiks. Ég tók Mendieta og Viduka útaf - setti Hasselbaink og Rochemback inná í staðinn. Chelsea voru líklegri til að setja þriðja markið heldur en við að minnka muninn en á 83.mínútu brunaði hinn sautján ára Adam Johnson (varaskeifa fyrir Stewart Downing) upp kantinn og fann Yakubu inn í teig sem hamraði boltann inn. 1-2. Þetta gaf mér smá vonarneista um að geta unnið í seinni leiknum. Á 91. mínútu kom svo langur bolti fram og Hasselbaink tók hlaupið á boltann og vann boltann, spilaði boltanum inn fyrir vörnina og þar kom Yakubu og renndi boltanum undir Petr Cech, markvörð Chelsea. 2-2! Það varð bókstaflega allt vitlaust. Hér er lýsing á marki Yakubu úr ensku blöðunum:
“Middlesbrough had gone back from 0-2 to 2-2 in the last 5 mintues. What a comeback! Yakubu netted both and when he scored his second (his 19th of the season) he ran to the Middlesbrough fans and dived full-length in front of them. How the fans went mad!”
Ég og Jose Mourinho héldum áfram að skylmast með orðum eins og Jedi-meistarar í fjölmiðlum. Mourinho kallaði okkur svindlara. Ég hló bara af honum. Alex Ferguson og Arsene Wenger tjáðu sig líka um málið og hlógu einnig af Mourinho. Seinni leikurinn var á Stamford Bridge. Þeir þurftu bara að halda hreinu og þá væru þeir komnir áfram. Við þurftum sigur og ég spilaði að sjálfsögðu til sigurs.
Þarna kemur Danny Graham aftur inn í söguna en hann var enn í láni þegar fyrri leikurinn var spilaður. Nú var Hasselbaink meiddur og Yakubu fjarri góðu gamni svo Danny Graham byrjaði inn á í sínum öðrum leik í röð, og félagi hans frammi var Mark Viduka. Bæði lið fengu nokkur færi í fyrri hálfleik og var þetta mjög jafn leikur fyrstu 45 mínúturnar. Þá gerðist eitthvað undursamlegt. James Morrison átti gott hlaup eftir að hafa fengið góða sendingu frá Chris Riggott og setti boltann inn í boxið. Danny Graham náði að rífa sig lausan og kom á nærstönginni til að setja boltann inn. 1-0 í hálfleik.
Á 47 mínútu fékk Danny síðan stungusendingu og hann kláraði færið vel. 2-0. 25 mínútum fyrir leikslok skallaði Mark Viduka síðan boltann inn til að koma liðinu 3-0 yfir. Áhorfendur Chelsea áttu ekki orð. Ég var mjög rólegur 10 mínútum fyrir leikslok þrátt fyrir að Chelsea skoruðu tvö mörk á stuttum tíma. Staðan var 3-2 og ef leikurinn myndi enda 3-3 færi ég áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Tveim mínútum fyrir leikslok skoraði svo varamaðurinn Ray Parlour skratulegt mark. 4-2. Þvílíkur sigur. Ég var stoltur að vera komin í úrslitin.
Ég fékk mikið hrós fyrir að koma liðinu í úrslit. Ég vil ekki tala mikið um úrslitaleikinn. Hann tapaðist fyrir Arsenal 3-1. Ég var brjálaður eftir leikinn og varð blindfullur í boðinu sem haldið var eftir leikinn. Ég gubbaði á konu Gareth Southgate, fyrirliða liðsins. Næsta dag í búningsklefanum lofaði ég að drekka aldrei aftur í boðum.
Í deildinni fór mér og liðinu að ganga mun betur og var ég kominn með fullan stuðning leikmanna, stuðningsmanna og síðast en ekki síst stjórnarinnar. Nokkir góðir og eftirminnilegir sigrar í deildinni, eins og 3-2 sigur gegn Aston Villa eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik stóðu uppúr. Yakubu hélt áfram að raða inn mörkunum eftir að hafa komið tilbaka frá Afríku mótinu.
Strætisvagna-pervertinn
Evrópukeppnin var spennandi og eftir að hafa slátrað Tyrkneska liðinu Fenerbache 6-1 (samtals) í 32 liða úrslitum þá mætti ég Celtic í 16-liða úrslitum. Ég vann útileikinn 1-0 með frábæru marki frá Jimmy beint úr aukaspyrnu. Það var gott skipulag á liðinu og við gáfum þeim ekkert pláss á miðjunni til að stjórna leiknum. Seinni leikurinn var ekki jafn góður en hann fór 1-1 (Jimmy Floyd aftur með markið) en við komumst áfram. Ég hélt það væri eitthvað djók í gangi þegar við drógumst gegn Rangers í 8-liða úrslitum. Bæði Glasgow liðin, fyrst Celtic, svo Rangers! Heimaleikurinn fór 2-2 í skemmtilegum leik, þar sem bæði liðin hefðu getað stolið sigrinum. Við töpuðum síðan 0-1 í Skotlandi og enn á ný varð ég brjálaður. Ég varð blindfullur og var handtekinn fyrir að kasta grjóti í strætisvagna, klukkan sjö að morgni dags. Ég var á forsíðum öllum blaðanna en mér var skítsama.
Flestir voru ánægðir með frábæran árangur í Evrópukeppninni en ég þráði meira. Ég hef svo mikinn metnað. Ég sagði við Steve Harrison aðstoðarmann minn að á næsta ári stefndi ég á Evróputitil. Honum fannst það rosa fyndið. Boro gátu loksins einbeitt sér að fullu að deildinni og við spiluðum fínan bolta fram að seinasta leik, þó vissulega hefðum við getað gert betur. 8.sætið varð raunin en það var aðeins markatalan sem kom í veg fyrir sjöunda sætið. Árangurinn tímabilið á undan var sjöunda sæti en ég var ánægður því á þessum tímabili fékk ég einu fleira stig svo ég náði tölfræðilega séð betri árangri.
Endir
Ég var sæmilega sáttur. Frábær árangur í bikar og evrópukeppnum og stöðugleiki í deildinni. Baltasar Kormákur hvað þetta var líka skemmtilegt tímabil! Líbis Andreas Arenas spilaði best á tímabilinu. Með yfir 7.40 í einkunn en í heild var liðið mjög þétt og flestir að standa sig ágætlega.
Yakubu skoraði 34 mörk í 44 leikjum sem er ótrúlegur árangur. Jimmy Floyd Hasselbaink skoraði 22 sem er líka rosa gott. Þeir þá með 56 mörk samtals sem er magnað. En liðið skoraði alls 101 mark á tímabilinu en fékk 85 á sig. Mark Viduka skoraði 15 mörk og Danny Graham skoraði sex mörk (aðeins í 12 byrjunarliðs leikjum). Sko drenginn.
Stewart Downing lagði upp 10 mörk og var mikilvægur hlekkur í liðinu. James Morrison lagði líka upp 10 mörk. Ég er ástfanginn af honum, hann verður bara enn betri með árunum.
Hér er uppstillingin sem ég notaði og leikmenn sem byrjuðu oftast inn á.
………………..Líbís Andreas Arenas…………….
Parnaby…………Southgate………..Riggot………Pogatetz
..Morrison………Boateng……….Mendieta/Parlour……..Downing
………Yakubu……………………..Jimmy Floyd………………
Hægri bakvarðarstaðan var ótraust svo ég var mikið að skipta um menn þar. Adam Johnson og Mark Viduka spiluðu líka mikið.
Mér líst mjög vel á hópinn sem ég hef núna. Ég á von tveim mjög ungum og efnilegum gaurum. Svo er ég með sex gaura í aðalliðinu sem ég nota mikið og þeir spila allir í Ensku unglinga-landsliðunum, eða u-17, u-19 og u-21. Það er jákvætt. Ef ég og Steve-arnir (aðstoðarmaður minn og stjórnaformaðurinn ganga undir þessum viðurnefnum) finnum 2-3 sterka leikmenn þá verðum við eitraðir á næsta tímabili. Ég er nýbúinn að skrifa undir nýjan 4-ára samning við liðið og er mjög sáttur með það. Ég er knattspyrnustjóri Middlebrough og ég er sonur David Bowie.