Ég geng um göturnar og í nóttinni er ég ein, þessari dimmu nátt sem hylur allt sem úti bærist. Nú er allt hljótt, allt kyrrt í langri þögn að næturþeli. Ég geng eftir stígnum að Fossvogsdal og læt hugann reika, um stjörnur og loft, ég finn að vorið fer brátt að koma. Loftið ilmar af grósku trjáa og blóma sem brátt fara að blómstra.

Ilmurinn leiðir huga minn langt í burtu þangað sem allt er bjart, þar sem sólin skín við fjallsrætur og himinnin er heiður og blár. Þar sá ég þig í fyrsta sinn, í firðinum við Ísafjörð. Þú stóðst í sólinni og virtir fyrir þér Kubbinn, fjarlægur á svip. Þú leist til mín þar sem ég sat í grasinu og taldi blómin mín, ég spurði þig hvort þú hyggðist klífa fjallið og í fyrstu sagðirðu ekki neitt heldur starðir út í blámann með saklausum augunum. Eftir stutta stund leistu við og sagðist mundu gera það ef ég kæmi með.

“Því viltu það?” spurði ég.

“Af hverju ekki?” svaraðirðu um hæl.

Viltu ekki bara setjast hjá mér og hjálpa mér að búa til krans úr blómunum, þú gætir hjálpað mér að týna þau upp,“ sagði ég vongóð.

”Af hverju að slíta upp blómin þegar þau eru svo falleg eins þar sem þau eru?“

”Þau verða alveg jafn falleg þegar ég hef týnt þau upp og fléttað úr þeim krans, ég skal jafnvel gefa þér hann þegar hann er tilbúinn, ef þú hjálpar mér.“

”Já, það er ef til vill rétt hjá þér, blómin eru alltaf jafn falleg,“ ”eins og þú“ sagðirðu seinna meir.
Þú settist hjá mér í lautinni og spurðir mig nafns.

”Ég heiti Lilja, en hvað heitir þú?“

”Trausti heiti ég og er Jökulsson“.

”Veistu það Trausti, þú ert með bláustu augu sem ég nokkurn tíma hef séð, blá eins og himininn,“ sagði ég með hrifningu. Þú brostir, en það var í eitt af þeim fáu skiptum sem þú gerði það. Svo fallegur varstu að orð fá ekki lýst því sem vaknaði í brjósti mínu þá og þeim loga sem lifir þar enn. Þetta bros, undursamlegra en allt, gat læknað öll mín mein.
”Þú ert með hvítasta hár sem ég hef nokkurn tíma séð, vissirðu það Lilja?“
”Eins hvítt og skýjaborganna ofan fjalla.“

Okkar fyrstu augnablik saman í bernsku voru þau ljúfustu sem ég átti, en þau saklausu ár vörðu allt of stutt.
Í minningunni ertu alltaf eins, svo yndislegur og ljúfur á svip en samt alltaf svo alvarlegur í bragði, en það gerði þig svo aðlaðandi, þokki þinn sem heillaði mig og ásjóna sem sækir nú á hug minn, sterkar en nokkurn tíma fyrr.

Eftir að hafa kynnst þér þetta sumar í firðinum urðu stundir okkar saman æ fleiri og ég man það svo vel þegar þú sagðir mér það fyrst hversu heitt þú elskaðir mig og að hjörtu okkar mættu aldrei skiljast að. Við vorum ung en ástin blómstraði í hjörtum okkar og átti eftir að vaxa æ meir með árunum, sem urðu allt of fá.

Ég fann það þegar þú fórst að verða veikari og sá það í augum þínum æ oftar hversu dapur þú varst, hvað þú áttir bágt. Ef ég hefði getað lagað dapurt hjarta þitt hefði ég reynt allt hvað ég gat til þess, sem og ég reyndi og vonaði að myndi gleðja hjarta þitt leiða. Við töluðum oft um lífið og depurðina en undan því var ekki komist þegar við bæði höfðum átt svo sorglegar stundir. Þú áttir þínar sorgir og ég mínar. Ég veit að ég fæ aldrei skilið hversu mikið þér leið illa og hvernig depurðin heltók þig allan.

Ég hélt alltaf að ég gæti fengið depurðina sem bjó í hjarta þínu til þess að hverfa.
Ég reyndi því að gefa þér sem mesta ást, þá ást sem spratt í hjarta mér er við fundum hvort annað fyrst og varð sterkari með hverri mínútu sem við eyddum saman, auk þeirra fáu stunda sem við vorum fjarri hvort öðru, frá fyrstu kynnum. Ég veit að samband okkar var þér lífgjöf og veitti þér mikla gleði þá tíma sem við vorum saman. Stundirnar sem við áttum í vorblíðunni í Fossvogsdalnum, þegar þú varst hjá mér þar og allt það góða sem lífið gaf okkur þá.
Þú kallaðir mig blómið þitt bjarta, tjáðir mér óendanlega ást þína og ég sá í augum þínum að þú sagðir satt. Ó, hvað ég gæfi fyrir það eitt að eyða með þér aðeins einni stund meir til að tjá þér það sem mér fannst ég aldrei tjá þér nóg, hvað þú varst mér kær og hvað ég elskaði þig heitt.

Þú varst og ert enn ljósið í lífi mínu, yndið mitt og ástin mín, ávallt. Ég veit ekki hvað það var sem bærðist um í brjósti þínu daginn sem þú ákvaðst að fara. Ég reyni að skilja það en sakna þín sárt nú þegar þú ert farinn á brott. Þegar ég rifja upp þennan dag man ég hvað hann var yndislegur, þessi vordagur þegar ég settist upp í flugvélina, á leið til þín og gat ekki beðið eftir því að fá að sjá þig aftur.

Ég hélt fast um tvo miða í hendinni, miðana sem ég ætlaði að koma þér á óvart með. Manstu, hvað þú vildir ólmur flytja að vestan til mín suður í Kópavoginn. Þess vegna veit ég að þú hefðir orðið glaður að sjá að ég var kominn að sækja þig, yndið mitt.
Við töluðum saman í símann kvöldið áður en ég kom. Ég heyrði að þú varst dapur en þú sagðist bara sakna mín svo sárt. Ég sagðist nú koma fljótt að faðma þig og við kvöddumst eins og alltaf, með yndisorðum.

”Ég elska þig Lilja, blómið mitt, ástin mín…“

Fleira sagðirðu ekki. En þessi seinustu orð eru mér kærari en allt.
Ég kom beint af flugvellinum inn í fjörð og gekk inn um dyrnar hjá þér, allt var slökkt, mér þótti það skrítið því þú varst vanur að taka á móti mér, en það skipti mig engu ég varð bara að fá að sjá þig, halda um þig og strjúka þig allan. Ég kallaði á þig en fékk ekkert svar svo ég bjóst við því að þú værir niðri og svæfir enn vært. Ég gekk niður full tilhlökkunar, en fljótt læddist þó að mér uggur því þegar niður var komið var allt slökkt og hurðin þín kyrfilega læst þegar ég ætlaði að læðast inn og vekja þig með kossi.
Þú varst vanur að hafa alltaf ljósið á ganginum kveikt og aldrei læstirðu hurðinni. Ég bankaði því laust og kallaði til þín því ég vissi að þú hlytir að vera inni í herberginu. Ég varð hrædd því ég fékk ekkert svar sama hvað ég reyndi. Lykillinn að herberginu var á sínum stað og ég flýtti mér að sækja hann og opna.

”Trausti, Trausti hvað hefurðu gert…?!“

Tárin runnu er ég settist hjá þér þar sem þú lást, svo hvítur og kaldur. Síðu fallegu lokkarninr þínir huldu andlit þitt, ég strauk þá frá og grét.

”Ó, hvað hefurðu gert, ástin mín, því ertu farinn frá mér,“ Trausti minn ekki skilja mig eftir eina.”

En þú varst farinn, horfinn á braut, friðsæll sem aldrei fyrr. Augu þín lyngd aftur og andlit þitt fagra sögðu mér allt.

“Nú ertu ekki dapur lengur, ástin mín,” sagði ég og vissi að ég sagði satt.
Nú gleðst með þér en sakna þín sárt og í dapra sál mína greypist, sá sannleikur að þú ert ekki lengur til.

Ljósið er horfið og ég stend aftur í dalnum, ein, án þín í myrkrinu og tómleikinn virðist fylla tíma og rúm. Ekkert fær aftur fyllt mitt tóma hjarta nema þú, Trausti, ég þrái þig enn og elska, í hjarta mínu er enn svo ótalmargt sem ósagt er og svo margt sem ég vil tjá þér. Ég kvíði þó ei, því ég veit við munum hittast brátt og þangað til ertu hjá mér í hjarta mínu, það veit ég…

Hugar tveir ætíð elskast
þótt skiljist að í stutta stund.
Því í öðrum heimi ástin frelsast
og blómstrar senn á bjartri grund.


Stúlkan þín.

————————————————-
Mér fannst svolítið leiðinlegt hvernig útlitið varð eftir að ég peistaði þetta hér inn úr Word en ég vona að þetta sé nokk læsilegt, kannski er bara best að copya hana og seiva í Word og lesa þannig.