Sælt veri fólkið!
Mig langar að benda þeim sem ekki vita af hattrick nú þegar, að kynna sér leikinn hið snarasta.
Hattrick er sænsk uppfinning, sem hefur á nokkrum árum laðað að sér yfir hálfa milljón spilara alls staðar að úr heiminum.
Leikurinn gengur út á að stjórna fótboltaliði (big surprise). Menn skrá sig á www.hattrick.org og bíða þangað til þeim er úthlutað liði. Yfirleitt er biðin aðeins nokkrir dagar, en hefur mest orðið tæpar tvær vikur svo ég viti til. Sumsstaðar eins og t.d. í Svíþjóð, er biðin fleiri mánuðir.
Þegar menn hafa fengið lið í hendurnar geta þeir hafist handa við stjórnunina. Yfirleitt eru leikmenn í daprari kantinum til að byrja með, og þjálfarinn vart hæfur sem slíkur. Völlurinn rúmar fáa áhorfendur, og aðdáendaklúbbur félagsins ekki stór.
Nýr stjóri þarf að taka ákvörðun um hvernig hann vill verja því fé sem honum er úthlutað í upphafi. Menn geta auðveldlega fengið aðstoð við ákvarðanatökuna. Bæði með því að spyrja á Íslenska spjallsvæðinu í leiknum, eða með því að lesa einhverja af mýmörgum leiðbeiningasíðum fyrir nýja leikmenn.
Að upplagi er leikurinn frekar einfaldur. Leikmenn hafa 8 basic stats: Stamina, keeper, playmaking, passing, winger, defending, scoring og set pieces. Auk þess hafa þeir mismunandi agreeability, honesty og agressivity, form þeirra dansar upp og niður (er þó eðlilega hærra ef þeir fá að spila) og með tímanum bæta þeir við sig í experience.
Stjórinn velur leikmenn í liðið, velur leikskipulag (3-5-2 er langvinsælast), ákveður hvað er þjálfað hverju sinni (playmaking er vinsælast, defending og scoring þar á eftir). Svo þjálfa menn sína leikmenn, stækka völlinn þegar liðinu er farið að ganga vel, selja menn sem búið er að þjálfa upp og kaupa aðra.
Það sem gerir hattrick að snilld e.t.v. öðru fremur, er að menn eru að spila við aðra leikmenn. Þannig eru 465 virkir spilarar á Íslandi einu. Liðin keppa í deildarkeppni, þar sem 8 lið eru í hverri deild. Efst er Úrvalsdeildin, síðan koma fjórar II. deildir, þá 16 III. deildir og 64 IV. deildir. Neðstu tvö lið hverrar deildar falla sjálfkrafa niður um deild (nema auðvitað í IV. deild, þaðan fellur enginn), en liðin sem lenda í 5. og 6. sæti fara í umspil um sæti sitt. Af liðunum sem vinna sína deild, fer efri helmingurinn (þá er farið eftur fjölda stiga sem liðið hefur úr sinni deild) beint upp, en hinn helmingurinn fer í umspil við liðin sem lentu í 5. og 6. sæti deildarinnnar fyrir ofan.
Deildarleikir eru á sunnudagskvöldum (hægt er að horfa á leiki í beinni textalýsingu á netinu). Tímabilið er 14 vikur þar sem spiluð er tvöföld umferð (heima og heiman). Svo líða tvær vikur milli tímabila (þá eru umspilsleikir útkljáðir).
En sagan er ekki öll sögð með deildarkeppninni. Í hverju landi fyrir sig er einnig bikarkeppni þar sem leikið er með útsláttarfyrirkomulagi. Þeir leikir fara fram á miðvikudögum (á Íslandi) og geta verið gríðarlega spennandi. Æðsta markmið hvers stjóra er vitaskuld að sigra tvöfalt, bæði í Úrvalsdeildinni og í bikarnum. En það eru fáir útvaldir, þótt margir séu kallaðir… ;-)
Þegar/ef menn detta út úr bikarnum geta þeir í staðinn spilað vináttuleiki á miðvikudögum. Mikilvægt er að missa ekki niður leiki því þá nýtast þeir ekki til að þjálfa leikmenn. Vináttuleikir við erlend lið gefa sömu þjálfun og deildar- og bikarleikir meðan vináttuleikir við innlend lið gefa aðeins 10% af því sama, þannig að mönnum er ekki ráðlagt að spila bara við vini sína á klakanum þótt það geti verið gaman endrum og sinnum.
Svo þegar mönnum hefur vaxið fiskur um hrygg og þeir telja sig nógu góða, geta þeir boðið sig fram til að stjórna landsliðum. Hvert land í hattrick hefur landslið og U-20 ára lið. Það þykir mikill heiður að eiga leikmenn í liðunum og getur líka gefið vel í aðra hönd, því slíkir menn seljast á mun hærra verði en aðrir. Haldnar eru heimsmeistarakeppnir bæði landsliða og unglingaliða og er keppnin gríðarlega hörð. Svo skemmtilega vill til að eftir tæpar tvær vikur tekur Íslenska U-20 ára liðið þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins, en þangað komst liðið eftir frækilega frammistöðu í undankeppninni. Þjálfari þess er sem stendur svíinn daddydj, en hann hefur lýst því yfir að hann muni hætta eftir þetta tímabil. Honum hefur tekist að koma liðinu á topp 10 á U-20 styrkleikalistanum.
Ég hvet menn til að kíkja á www.hattrick.org og skrá sig, fá sér lið og taka þátt. Þetta er leikur sem er afskaplega þægilegur fyrir þá sem hafa kannski nóg annað að gera, en þykir gaman að spila manager-leiki. Það er hægt að ná langt í þessum leik án þess að fórna vinnu, námi og vinatengslum, því sama hversu ‘hooked’ menn verða á leiknum, þá eru bara leikir tvisvar í viku. ;-)
Leikurinn er ókeypis, en það er hægt að kaupa svokallaðan ‘supporter’ status gegn vægu gjaldi. Það færir mönnum enga bónusa í leiknum sjálfum, bara skemmtilega aukafídusa s.s. gestabók, myndir af leikmönnum, möguleika á að gefa út blaðayfirlýsingar til annarra liða í sömu deild og þess háttar. Það er þó engan veginn nauðsynlegt að eyða krónu til að ná alla leið í leiknum, þannig eru margir toppstjórar í löndum eins og Argentínu (sem er eitt stærsta HT landið ásamt Svíþjóð og Spáni) sem aldrei hafa keypt sér supporter.
Hlakka til að sjá sem flesta í leiknum. Ef menn vilja geta þeir litið inn hjá mér. Ég heiti Argonite þar, liðið mitt er KF Rottenton og sem stendur er ég í 2. sæti í deild III.1.
Takk fyrir mig.