Regnið hamraði látlaust á rúðuna og vindurinn ískraði í eyrunum á mér…
Klukkan var rúmlega 8 um morguninn og laugardaurinn 30 apríl hló að mér og aðstöðunni sem ég var í. Ég hafði kviðið fyrir þessum degi lengi og núna var komið að því, 3. seinasti leikur okkar í ensku úrvalsdeildinni átti að hefjast um hádegið og andstæðingarnir voru Arsenal. Það fór um mig hrollur bara við tilhugsunina eina að þurfa að keppa gegn þessum óvættum og það sem gerði stöðuna enn verri var sú staðreynd að það lið sem kæmi út sem sigurvegarar eftir þennan leik myndi að öllum líkindum vinna deildina líka.
Höfðum við núna verið alveg í rassgatinu á þeim alveg frá því fyrir jól og staðan í dag var sú að Arsenal höfðu 79 stig og +50 mörk, en við vorum með 76 stig og +50 mörk. Glöggir menn sáu þá að kæmum við til með að vinna þennan leik í dag þá myndum við jafna stigatöluna þeirra og komast yfir á markatölu. Því meira sem ég sat í sófanum mínum og hugsaði um þetta því meira kveið mér fyrir þessari stærstu viðureign ársins í enskri knattspyrnu.
Þetta hafði ekkert verið neitt lítið ár hjá mér sem framkvæmdarstjóri Rauðu Djöflanna og gat ég ekki verið annað en sáttur við mig og frammistöðu mína manna hingað til. Þetta hafði allt saman byrjað með smá svekkelsi þegar við töpuðum Góðgerðaskildinum naumlega til erkifjendanna í Arsenal og strax eftir þann leik hafði aldrei verið neitt gott á milli mín og Arsena Wenger, það endurspeglaðist nú bara af öllum þeim hortugu orðum sem flugu okkar á milli í hinum ýmsu dagblöðum landsins út leiktíðina. Hafði ég keypt mikið magn af leikmönnum út árið og ef ég ætti að velja bestu kaupin yrði ég að segja Petter Vaagan Moen, hann hafði oftar en ekki komið inná sem varamaður þegar úthaldið hjá Ryan Giggs var að þrotum komið, og stóðst hann nær alltaf undir þeim stóru væntingum sem Giggs skildi eftir sig á vellinum. Svo var hann ekki nema 20 ára þannig hann mun hafa nógan tíma til að vaxa og dafna sem leikmaður og vonandi á ég eftir að geta notað hann mikið um ókomin ár.
Ég hafði einnig selt 2 leikmenn þessa leiktíðina og voru það þeir Quinton Fortune og Bojan Djordic. Aldrei skemmtilegt að sjá á eftir ungum og efnilegum leikmönnum en var ég samt á þeirri skoðun að þeir ættu aldrei eftir að fá tækifæri til að sanna sig almennilega á Old Trafford þar sem ég hafði marga betri leikmenn í röðum mínum. Þar af leiðandi betra fyrir báða aðila að þeir myndu fara til einhvers annars liðs og byggja upp feril sinn þar.
Við höfðum náð einum bikar í hús það sem af var liðið þetta árið og ennþá smá vonarglæta fyrir þann síðari. Við unnum góðan sigur á Newcastle snemma í vor og með þeim sigri urðum við krýndir Bikarmeistarar Englands. Frábært afrek og vorum við lengi í skýjunum eftir það…
En svo komu dimmir tímar þegar líða tók á vorið og duttum við snemma út úr meistaradeildinni eftir mikinn og tvísýnan markaleik gegn Roma og vorum við á því máli að þar hefði bara óheppnin verið við völd og hefðum við næsta ár til að bæta fyrir þessi leiðinlegu mistök.
Svo stuttu síðar töpuðum við í undanúrslitum í FA bikarnum gegn Liverpool í markalitlum leik sem þeir unnu 1-0. Ekki kannski sá bikar sem var hæstur á óskalistanum okkar en engu að síður svekkjandi missir. En þegar ég hugsa um Liverpool verður mér strax hugsað til þeirrar leiðinlegu staðreyndar að Rafa Benítez var rekinn frá félaginu snemma á árinu vegna slæms gengis í deildinni. Mér sem var farið að líka ágætla við kauða þannig ég bauð honum aðstoðar-framkvæmdastjórastarf hjá Man Utd, en skiljanlega afþakkaði hann það pent því það væri fullstórt skref niður á við að fara úr stjórnunarstarfi hjá einu af stærstu liðum Englands yfir í aðstoðarstjórnunarstarf. Staðgengill hans varð svo skömmu seinna Bo Johansson sem sagði skilið við IFK Göteborg til að setjast í stjórnunarstólinn á Anfield Road, ekki ætla ég að setja útá hann fyrir það því Liverpool augljóslega ansi stórt skref uppá við fyrir feril hans sem framkvæmdarstjóri.
Í öllu þessu minningaflakki gleymdi ég alveg hvað tímanum leið og áður en ég vissi af var kominn tími til að koma sér niður á Old Trafford gera sig kláran undir stríðið sem var í þann veginn að hefjast.
Byrjunarliðið var komið á blað og var ég á þeirri skoðun að þrátt fyrir að Tim Howard hefði nú ekki átt sjö dagana sæla undanfarið á milli stanganna væri hann engu að síður töluvert hæfileikaríkari en Roy Carrol og því væri gáfulegast að nota hann gegn eins sterku liði og Arsenal var. Vörnin var nokkuð skotheld þrátt fyrir meiðsli hjá Gary Neville. Ákvað ég að Silvestre vinstra megin og Brown hægra megin, svo Ferdinand og Heinze á milli þeirra.
Miðjan var hinsvegar svolítið snúin og komst ég að þeirri niðurstöðu að Keane gæti ekki klikkað sem varnarmiðjumaður, Giggs og Ronaldo á sitthvorum kantinum, og svo félagarnir Alan Smith og Paul Scholes rétt fyrir aftan Nistelrooy. Bekkurinn var svo þéttskipaður snillingum á borð við Rooney og Vaagan Moen sem voru meira en til í að hlaupa í skarðið fyrir hvern sem er inná vellinum um leið og meiðsli eða þreyta færi að segja til sín.
Um það leyti sem leikurinn byrjaði hafði rigningunni stytt upp og sólin byrjuð að gægjast lúmskt á milli skýjanna. Ég hafði nú ekki verið þekktur fyrir að vera hjátrúafullur en þó ákvað ég að líta á þetta sem góðs viti og kannski að þetta væri fótboltaguðinn, gamli vinur okkar frá því um vorið, að koma og heilsa uppá okkur og þar af leiðandi ættum við góða möguleika á sigri. Carlos, aðstoðarmaður minn, kom að mér og sagði Skysports.com hafa spáð okkur sigri í þessum leik og gerði það ekki annað en að ýta undir vonir mínar að nú væri kominn tími á að hrifsa toppsætinu af Arsenal í eitt skipti fyrir öll.
Þessar hugsanir voru þó fljótar að hverfa þar sem Henry tókst að koma Arsenal mönnum yfir á 5. mínútu eftir virkilega hraða og vel spilaða sókn. Þetta hefði ekki getað byrjað verr því nú var sjálfstraustið þeirra í hámarki á meðan við þurftum að rífa okkur uppúr þessum vonbrigðum snemma leiks. Skaphundurinn Alan Smith hefur eflaust haft eitthvað ill í hyggju eftir þetta því 3 mínútum seinna meiddi hann Pires illa og þurfti sá síðarnefndi að fara af leikvelli. Þetta var mikill léttir fyrir okkur því Pires hafði sett upp 33 mörk fyrir Arsenal það sem af var leiktíð og þetta yrði að sjálfsögðu mikið áfall fyrir þá sem liðsheild. Slapp Smith við spjald og hélt leikurinn því áfram að öllu óbreyttu nema Edu kom inná í stað hins sárþjáða Pires. Þetta virtist þó ekki hafa nein áhrif á þá því á 21. mínútu tókst þeim að bæta öðru marki við og í þetta sinn var það Reyes sem skoraði. En 10 mínútum síðar vöknuðu mínir menn skyndilega til lífsins og eftir gott spil hjá Giggs og Nistelrooy þá fékk Scholes sendingu inn í teiginn og kláraði færið snilldarlega framhjá Lehmann í markinu. Aðeins 2 mínútum síðar munaði minnstu að við hefðum jafnað því Ronaldo átti fastan skalla í slánna. Við héldum ótrauðir áfram að skjóta á markið þeirra en ekkert gekk, og áður en við vissum af var flautað til hálf leiks og við marki undir. Ekki besta staða sem við gátum óskað okkur en nú var bara eina vitið að koma tvíefldir til leiks eftir hléið og jafna leikinn snemma.
Ég ákvað að gera enga breytingu á liðinu þannig leikurinn byrjaði aftur með sömu menn í öllum stöðum. Stuttu eftir að leikurinn hafðist meiddist Scholes lítillega þannig ég tók uppá því að skipta honum útaf fyrir Rooney og hafa þar af leiðandi Rooney við hlið Smith, rétt fyrir aftan Nistelrooy. Ég hafði lúmskan grun um að þetta fyrirkomulag gæti kannski skilað okkur marki. Tíminn leið og nú voru aðeins 5 mínútur eftir af venjulegum leiktíma, ákvað ég þá að færa Keane framar upp völlinn og setja svo allan kraft í sóknina og auka pressuna eins og mögulegt var. Þegar komið var í uppbótartíma vorum við í hörkusókn og Rooney alveg sloppinn einn í gegn í vítateiginn, en þá flautar dómarinn leikinn af! Ég hélt ég yrði ekki eldri af reiði!! Hvernig getur dómari gert svona skandal, eyðileggja sókn sem gæti skapað mark á síðustu sekúndunum. Ég hreytti eins mörgum blótsyrðum og kunni í þetta dómarahyski áður en ég strunsaði í búningsklefan, þessi manndjöfull hafði kannski kostað okkur Englandsmeistaratitilinn! Nú voru Arsenal með 6 stiga forskot á toppnum og aðeins 2 leikir eftir, þyrftu þeir að tapa þeim báðum og ég að vinna mína tvo.. Þetta var nánast ógerlegt.
Ekki bætti svo úr skák að þegar ég kom heim á leit á tölvupóstinn minn beið mín skilaboð frá David Gill og stjórninni að þeir væru mjög vonsviknir með frammistöðu mína gegn Arsenal og hefðu búist við mun betri árangri. Ég lamdi nokkrum sinnum í lyklaborðið og ákvað svo að fá útrás fyrir reiði minni með því að senda út orðsendingu í fréttirnar, um þennan nýkláraða leik gegn Arsenal. Ég tók það fram að þeir hefði unnið þetta með einskærri heppni þar sem okkar lið hefði átt fleiri færi í leiknum, og að þeir hefði líka verið manni fleiri þar sem dómarinn gekk augljóslega til liðs við þá í lok leiksins. Eftir þetta leið mér töluvert betur og gat farið sáttur að sofa.
Næsti leikur Arsenal var svo gegn Liverpool og fór hann 3-1 fyrir þeim fyrrnefndu og þar með höfðu þeir kramið draum okkar um að vinna deildinna þetta árið. Það var þungt yfir okkur öllum 8. maí þegar leikurinn gegn Man City var að hefjast en kom það ekki að sök því við unnum þægilegan 2-0 sigur með mörkum frá Keane og Rooney, svo ekki sé talað um að Scholes stóð sig fyrirmyndarvel í öllum leiknum og endaði svo sem maður leiksins.
Nú var aðeins einn leikur eftir á þessu tímabili og var hann gegn Everton. Þar sem þetta var síðasti leikurinn ákvað ég að leyfa leikmönnum sem ég hafði skilið eftir úti í horni þetta árið og ekki gefið nógu mörg tækifæri, að spila. Og leyfði ég til að mynda Ricardo, þriðja markmanninum, að vera á milli stanganna í þetta skipti. Leikurinn endaði okkur í vil, 3-1 og stóð Ricardo sig bara með stakri prýði í markinu. Ég tók í höndina á David Moyes framkvæmdarstjóra Everton og þakkaði honum fyrir gott leiktímabil og kvaðst sjá hann aftur mættan til leiks næsta haust. 2. sætið í ensku úrvalsdeildinni var orðin staðreynd og gátum við ekki verið annað en sáttir við það, við höfðum gefið allt okkar besta hverja mínútu af liðinni leiktíð og hafði það næstum skilað okkur á toppinn. Þar með voru leikirnir þetta árið taldir og lítið annað að gera en að skella sér heim, slappa af og byrja að plana langt og verðskuldað sumarfrí….