Gömul og góð leið til að hæðast að einhverju, og sýna öðrum hvað eitthvað er fáránlegt, er að sýna þeim algjöran öfga fáránleikans í því sem maður gagnrýnir í von um að fólk átti sig.
Mér hefur fundist það vera algengt sjónarmið að myndefnið skipti meira máli í ljósmynd en ljósmyndin sjálf (þó það sé í einhverjum tilfellum líklega ómeðvitað), og að mynd af einhverju fallegu sé falleg mynd, og að fegurð myndefnisins sé að mestu leiti ljósmyndaranum að þakka, óháð því hvernig hann nálgast myndefnið eða gefur okkur nýja sýn á það.
Ég veit ekki hvort þetta sé einhver hrósþörf hjá fólki að springa út eða hvort þetta sé vandræðaleg tilraun þess til að vera vingjarnleg, en ég veit að mér þykir þetta alveg fáránlegt.
Kannski sjáiði það ekki þegar fólk vill hrós fyrir innantóma mynd af blómi og kannski sjáiði ekki tenginguna milli ljósmyndar af fallegri mynd (hvað þá ef það er mynd á tölvuskjá), en ég ætla samt að halda áfram að hlæja að ykkur. Það er hægt að gera svo margt annað og svo margt miklu betra með þessu æðislega tjáningarformi sem ljósmyndin er.
Ykkur er frjálst að kalla mig hrokafullan, leiðinlegan, íhaldsaman eða hvert annað -an lýsingarorð sem ykkur dettur í hug.
Ég mun ekki taka þau nærri mér.
Innilegar og skælbrosandi kveðjur, í von um að vekja amk. smá vangaveltur.
amínósýran, W.