Til hamingju með nýju myndavélina!
Ég myndi eindregið ráðleggja þér að fara hægt í öllum frekari tækjakaupum. Ég myndi t.d. alls ekki kaupa flass og fullt af linsum strax. Ástæðurnar eru þær að það er ekkert víst að áhuginn á ljósmyndun haldist og þá er ekki gott að hafa eytt of miklum peningi í búnað og að auki er alltaf best að byrja fyrst að taka myndir og svo sjá hvað þig raunverulega vantar af ljósmyndabúnaði.
Þú skalt hinsvegar endilega kaupa fullt af filmum og nota þær! :-)
Hér áður fyrr, þ.e.a.s. áður en zoom linsur urðu almennar, byrjaði fólk venjulega á því að kaupa sér myndavél og fasta (ekki zoom) 50mm linsu. Kosturinn við 50mm linsur er að þær eru rosalega skarpar, með stórt ljósop sem þýðir að þú getur tekið myndir í lítilli birtu án þess að nota flass og þar að auki eru þær mjög ódýrar. 50mm f/1.8 kostar um 15.000 í Beco en ég keypti mína notaða þar á 4000 krónur fyrir um 3 árum. Þess má geta að ég hef keypt tvær linsur síðan (24mm og 85mm) og hvor um sig kostaði 10 sinnum meira en 50mm linsan mín en samt nota ég enn mest 50mm linsuna. Sumir ljósmyndarar nota meira að segja svo til eingöngu 50mm linsur, Cartier Bresson, sem er einn besti götuljósmyndari í heimi fyrr og síðar, notaði svo til eingöngu 50mm f/2 linsu og Leica myndavél allan sinn feril.
Í stuttu máli sagt, ef þú ætlar að kaupa eitthvað skaltu kaupa þér 50mm f/1.8 linsu :)
Philip Greenspun hefur reyndar skrifað ágætis grein um hvernig gott er að haga tækjakaupum í byrjun:
http://www.photo.net/equipment/35mm//building-an-slr-systemEn svo er ágætt fyrir þig að lesa þér aðeins til um grunnatriði í ljósmyndun, hvað er ljósop og lokhraði o.þ.h. Ég mæli með
http://www.photo.net/making-photographs/En nokkur tips í lokin:
1. Fyrir myndatökur úti af börnum og dýrum (væntanlega hundum og köttum, er það ekki?) myndi ég fá mér 50mm linsu, nota AV-mode á vélinni, stilla á f/5.6 eða f/8, nota 100 ASA filmu þegar það er bjart, annars 400 ASA filmu og bara smella af.
2. Ef þú hefur áhuga á landslagsljósmyndun verður þú líka að hafa þrífót - það er ekkert val. Þrífætur eru til af öllum stærðum og gerðum en sá þrífótur sem ég nota mest er pínulítill, valtur og ódýr (undir 3000 kr.) SLIK þrífótur sem ég keypt í Hans Petersen (á Laugavegi). Ástæðan fyrir því að ég nota hann mest er að hann er fisléttur og mjög auðvelt að fara í göngu- og hjólatúra með hann. Ef þig langar hinsvegar í góðan þrífót skaltu fara í Beco og fá þér Manfrotto þrífót. Við erum að tala um c.a. 15.000 fyrir þrífót og haus. Beco-fólkið getur leiðbeint þér um valið.
3. Bestu aðstæður til útimyndatöku eru í ljósaskiptunum (á morgnana og á kvöldin). Á Íslandi erum við mjög heppin því ljósaskiptin taka lengri tíma en sunnar á Jörðinni og það skaltu endilega nýta þér. Ef þig langar í flottar landslagsmyndir er semsagt auðveldasta leiðin að vakna snemma á morgnana og hlaupa út í morgunbirtuna. Þegar ég fékk mína myndavél var ég einmitt mjög duglegur að taka myndir á morgnana (er latari nú) og ég ætlaði varla að trúa því hvað ég, venjulegur byrjandi, gat tekið fínar myndir (þ.e.a.s á minn mælikvarða) með því einfaldlega að vakna snemma, nota þrífót og vandaðar filmur.
4. Vandaðu valið á filmum. Í flestum stórmörkuðum er hægt að fá þessar Kodak Gold 200 ASA filmur og svo Kodak MAX filmur. Ekki kaupa þær! Ágætis leiðbeiningar um filmur er að finna á
http://www.photo.net/equipment/filmSlides filmur eru voðalega skemmtilegar - ég nota mikið Fuji Sensia II sem eru frekar ódýrar en svo eru líka til eins og Fuji Provia og Velvia sem eru með mjög skemmtilega eiginleika. Það er líka ágætt að vanda valið á framköllunarþjónustu - Ljósmyndavörur í Skipholti eru fínar því þeir nota Frontier framköllunarvél sem eru voða fínar.
5. Ef þú verslar í Beco skaltu endilega biðja um að vera meðlimur í afsláttarklúbbnum þeirra.
6. Vinsælustu Canon portrett linsurnar eru 85mm f/1.8 og 100mm f/2 en þær kosta um 50.000 í Beco. Trikkið við portrett myndatöku er að hafa stórt ljósop, t.d. f/2.8, fókusera á augun og taka myndirnar við norðurglugga þegar sólin er hátt á lofti (hádegi er 13:30 á Íslandi). Annars var Fluffster með ágætis leiðbeiningar um portrett myndatöku í stúdíó greininni. Aðrar ágætis leiðbeiningar má finna á
http://www.photo.net/portraits/intro7. Taktu nóg af myndum - öðruvísi verður þú aldrei góður.