Nú vil ég endilega skrifa um eina klassíska vél, Olympus OM-1. Mér hefur alltaf fundist Olympus vera vanmetnar vélar, þeir eru ekkert að koma með nýjar vélar á hverju ári, sem einfaldlega bendir til þess að vélarnar eru nærri fullkomnar, að öðrum framleiðendum ólöstuðum! ;) (Vonandi tekst mér að grafa upp efni um fleiri klassískar vélar)
Heilinn á bak við OM kerfið er Yoshihisa Maitani, núna titlaður “ráðgjafi” hjá Olympus. Maitani er líklega eini myndavélahönnuðurinn í heiminum sem hefur verið beðinn um að árita vélar sínar.
Hönnunin á OM kerfinu byrjaði í Janúar 1966, og var strax ákveðið að hanna heilt kerfi, ekki bara myndavél. Olympus framleiðir líka smásjár og sjónauka, allt þetta átti að smella saman fyrirhafnarlítið. Annað sem lögð var áhersla á var að hanna “einstaka vél, sem hvergi er til annarsstaðar”. Á þessum tíma voru 35mm SLR vélar stórar og þungar, og var lítill þrýstingur á framleiðendur að minnka vélarnar, litlar vélar voru álitnar “leikföng”.
Í heilt ár fóru fundir í hvernig vélin ætti að vera, Maitani þorði ekki fyrir sitt litla líf að segja að stærð og þyngd, eða öllu heldur skortur á þessu, ætti að vera lykilatriði í hönnuninni. Loks gafst yfirmaður deildarinn upp og sagði við Maitani “Gerðu það sem þú vilt”.
Í fyrstu var vélin kölluð M-1. En Leitz (nú Leica) var ekki hrifið. Þegar Olympus M-1 var sýnd á Photokina 1972 fékk Olympus skýr skilaboð frá Leitz um að þeir væru ekki hrifnir að Olympus notaði “M” í tegundarheiti, því á þessum tíma framleiddi Leitz vél sem hét M-1. Svo Olympus bætti við “O” og OM kerfið varð til. Þessi ákvörðun var tekin á klukkustund, en Olympus vélar með M-1 heitinu voru þegar komnar í framleiðslu og eru safngripir í dag.
Annað sem haft var í huga var að gera vélina eins litla og mögulegt var, án þess að hún yrði óþægilega lítil, Maitani sagði að þeir hefðu getað haft vélina enn smærri, en hann vildi það ekki því þá hefði hún verið orðið óþægilega lítil.
Líklega hefur engin 35mm SLR vél verið framleidd eins lengi svo til óbreytt eins og OM-1. OM-1 var framleidd svo til ársins 1986. Einu breytingarnar voru 1973 þegar möguleikum fyrir mótordrif var bætt við og 1979 þegar samskiptum við T-flössin frá Olympus var bætt við.
Það sem gerir OM-1 sérstaka eru möguleikarnir og að vélin var heilinn í heilu kerfi, allt frá fókusgleri upp í rafeindasmásjár. Vélin er einnig 100% vélræn, þ.e. hún virkar án battería. Um leið og vélin var hönnuð voru Zuiko linsurnar hannaðar með sömu formerkjun. Enn í dag þykja þær vera með betri linsum, og jafnframt mjög nettar.
Allt annað var tilbúið um leið og vélarnar, mótordrif, bulk bök, flöss og linsur.
Enn í dag þykir OM-1 ein merkilegasta vélin í 35mm SLR hópnum, og er stillt upp við hliðina á vélum eins og Nikon F1/F2 og Canon A1.