Sæl og blessuð öllsömul.
Ég heiti Alda og er búin að vera áhugaljósmyndari í u.þ.b. tvö ár. Draumur minn þróaðist fljótt í að verða atvinnuljósmyndari og ég er reiðubúin að leggja meira á mig til að uppfylla þennan draum en flest annað.
Ég er í menntaskólanum við Hamrahlíð á þriðja ári (málabraut) og stefni á að hella mér út í ljósmyndun að námi loknu.
Ég hef einna mestan áhuga á tískuljósmyndun, að vinna með módelum og langar að reyna við auglýsingar á fötum, skartgripum etc.
Ég hef unnið nokkuð með vini og kunningja sem módel og hluta af afrakstrinum er hægt að sjá hér eða hér.
Myndavélin sem ég notast mest við er stafræn myndavél frá Konika Minolta, Dimage A2. Einnig hef ég afnot af gamalli filmuvél frá Pentax. Ég er auk þess að fara að fá ljósabúnað á næstunni, eitt aðalljós með flassi og tvö aukaljós. (Set inn merkið á ljósunum þegar ég er búin að tékka á því ;))
Starfsferillinn til þessa;
er ekki mjög langur. Ég vann hjá Smelli síðasta vetur og tók m.a. myndir fyrir Smell og af dansnámskeiði í Kramhúsinu.
Ég hef farið á námskeið hjá Pálma Guðmundssyni (www.ljosmyndari.is) þar sem ég lærði grunn-tækniatriði og reyndi einnig við alvöru stúdíó með módeli.
Í vetur er ég svo komin með eitt (borgað) verkefni fyrir vinkonu mína, en hún er að hanna föt og bað mig um að taka myndir á tískusýningu sem hún og vinkonur hennar ætla að vera með.
Ég er ekki með neinar fastar hugmyndir um verð fyrir myndir en það ætti að vera hægt að komast að samkomulagi um það. Ef þér líst vel á myndirnar sem ég er með á síðunum mínum, endilega hafðu samband sem fyrst :)