"Filmu-ýtingar" eða "Pushing" Um daginn rölti ég mér til blaðasalans á horninu hér í London og keypti mér “Photography monthly” (Mars 2004) sem ég veit ekki hvort fæst á Íslandi. Það sem vakti áhuga minn á þessu eintaki var grein þar sem blaðafólkið prófaði hvernig hraðar filmur bregðast við því að vera ýtt (e: pushed). Ætla ég hér aðeins að fjalla um hvað við er átt með þessu.

Fyrst er smá bakgrunnur: Filmur koma með mismunandi ISO- eða ASA- númer (sami hluturinn) sem stendur fyrir hversu ljósnæmar þær eru. Vanalega er talað um hægar filmur sem hafa ISO minna en 100, miðlungs hraðar 100-400 og hraðar sem hafa ISO 400 eða meira. Því hærri ISO tala því meiri er ljósnæmnin sem þýðir að hægt er að taka myndir A) í minna ljósi, B) við smærri ljósop, C) meiri lokhraða. Gallinn við hraðar filmur er sá að þær gefa grófkornóttari myndir en hægar filmur, auk þess sem að litir koma ekki eins vel út. Líklega ein besta filman upp á liti og skerpu er Fuji Velvia en gallinn við hana er að hún er ekki nema 50 ASA sem þýðir að erfitt er að nota hana þegar ljós er lítið nema þá með þrífót. Reyndar er komin 100 ASA Velvia sem er svipuð og Kodak VS en hvorug þessi filma er jafn flott og sú gamla. (Þetta Velviu þvaður var útidúr)

Með því að ýta filmu er í raun verið að taka á filmuna á hærra ASA gildi en hún er gefin upp fyrir. Dæmi um slíkt er að hafa 400 ASA filmu í vélinni en stilla ASA á myndavélinni á 800. Í raun er filmum ýtt í ljósopum, dæmið að ofan er eitt f-stopp og ef 400 ASA filma ýtt í 1600 ASA er henni ýtt um 2 f-stopp. Þetta gefur kost á því að taka myndir á meiri hraða en ella eða á minna ljósopi. Oftast er þetta þó notað þar sem lýsing er lítil og ekki er hægt að nota flass eins og t.d. á íþróttum,tónleikum, söfnum og slíku. Rétt er að taka fram að ljósnæmni filmunar eykst ekki neitt og í raun er verið að undirlýsa (under-expose) filmuna en trikkið er að þetta er lagað í framköllun. Filman er einfaldlega látin liggja í framköllunar-vökvanum lengur. Þannig að þegar farið er með filmuna í framköllun verður að taka fram að filmunni hafi verið ýtt og oft þarf að borga auka gjald fyrir slíkt.

Þetta er samt ekki án vandkvæða. Kornastærð verður en meira áberandi þegar filmu er ýtt auk þess sem breidd (latitude) minnkar. Þá er átt við að það sem er í skugga verður frekar svart og það sem er í sterku ljósi verður hvítt, þetta eins og flest annað í ljósmyndun er mælt í stoppum (f-tölum). Aftur á móti getur þetta komið mjög flott út auk þess sem alltaf er skárra að hafa einhverja mynd en enga. Almennt þá eru svart hvítar filmur betri til ýtingar en lita filmur. Einnig er rétt að athuga að filmur eru misgóðar er kemur að því að ýta þeim. Hér að neðan læt ég fylgja með einkunn þeirra filma sem komu best út í prófi P-M.

S.H. FILMUR
ILFORD HP5 (400 ASA, breidd -2 til +3 stopp), Hægt er að ýta henni 3 stopp (upp í 3200) og hefur þá breidd upp á -1 til +1 stopp. Einkunn 5/10
ILFORD DELTA 3200 (3200 ASA, breidd -2 til +3). Hægt að ýta henni 2 stopp upp í 12800 ASA, breidd þá -1 til +1.5, Einkunn 7/10
KODAK T400CN (400 ASA, breidd -1.5 til +3). Hægt að ýta í 1600 ASA, breidd -1 til 2 stopp, (framkölluð með C-41). Einkunn 6/10.

SLIDES FILMUR
KODAK EKTACROME E200 (200 ASA, breidd -1 til +2), má ýta henni 3 stopp upp í 1600 ASA, breidd -1 til +0.5, Einkunn 7/10.
FUJI PROVIA 400F(400 ASA, breidd-1 til +2), má ýta henni 2 stopp upp í 1600 ASA, breidd -1 til +0.5, Einkunn 7/10.

LITFILMUR
FUJI SUPERIA X-TRA 800 (800 ASA, breidd -2 til +3), má ýta henni 2 stopp upp í 3200 ASA, breidd -1 til +2, Einkunn 8/10.
KODAK ROYAL SUPRA 800 (800 ASA, breidd -2 til +3), má ýta henni 2 stopp upp í 1600 ASA, breidd -1 til +0.5, Einkunn 7/10.

Mun fleiri filmur voru prófaðar í þessu prófi en þessar fengu hæstu einkun. Í lokin mæla þeir með Delta 3200 fyrir S/H, T400CN fyrir plat S/H, Provia 400F fyrir slides og Superia X-Tra fyrir pappír.


Phoca

ps. Ef einhver ætlar að prófa að ýta Deltunni upp í 12800 þá eru engar myndavélar mér að vitandi sem hafa slíka súper ISO-stillingu. Málið er þá að skrúfa ISO upp í 6400 og stilla svo exposure-compensation á -1.