Þetta greinar-korn fjallar um myndatöku á tónleikum en á í raun við um myndatöku alls staðar þar sem ljós er mjög takmarkað og ekki er hægt af einhverjum örsökum að koma við flassi. Forsaga þessarar greinar er sú að ekki fyrir löngu síðan fór ég á rokk tónleika með vinum. Ein vinkona mín var með einnota myndavél og smellti hún af í gríð og erg af hljómsveitinni. Þegar myndinar komu úr framköllun voru þær allar svartar, sem sagt það voru engar myndir af hljómsveitinni. Ástæðan var náttúrulega sú að flassið á “vélinni” var ekki nógu öflugt til að lýsa upp það sem átti að mynda.

Fyrir næstu tónleika ákvað ég að reyna að gera aðeins betur. Vandamálið er semsagt að ekki er hægt að nota flass (var um 20 metra frá sviðinu), þrífótur og slíkt er útúr myndinni og það sem verra er að “atvinnu”-myndavélar eru oftast bannaðar í tónleika sölum. Ekki gerði það málið auðveldara að hljómsveitin sem var að spila var Tindersticks sem eru ekki þekktir fyrir mikil ljósa-show á sviðinu og því var gefið að lýsing yrði ákaflega takmörkuð. Það var því ljóst að þetta yrði unnið á stórum ljósopum og súper ljósnæmum filmum. Tækin sem ég notaði voru því Canon EOS-500 (EOS-3 var of “pro” auk þess er hún hávær), 100mm Macro linsa (valið stóð á milli hennar og 100-300 en macro-inn vann á að vera f2.8 meðan hin er f4-5.6) og svo var rúlla af Ilford Delta 3200 sem ég push-aði um eitt stopp upp í 6400asa. Svo hafði ég vélina á Av-stillingu og reyndi að nota sem minnst ljósop gefið að hraðinn færi ekki undir 100-150. Flass kom hvergi við sögu

Þetta gerði mér kleift að ná, að mér fannst, ágætis myndum af hljómsveitinni. Reyndar var dáldið af myndunum ekki í fókus (autofocusinn virkaði ekki vel í rökrinu, né heldur augað á mér) og á sumum myndunum litu hljómsveitar-meðlimir út eins og þvottabirnir en það var náttúrulega vegna sterkrar lýsingar að ofan. Gallinn við að nota svona ljósnæma filmu er að hún er ansi kornótt og ekki hjálpar til að push-a henni. Aftur á móti truflar það mig ekki hið minnsta og ég er meira að segja nokkuð hrifinn af þessu. Þetta gefur myndunum annað yfirbragð og nær á undarlegan hátt fram stemmingunni sem er á tónleikum. Gaman væri þó að heyra álit fólks á mismunandi filmum til að nota í svona tilfellum.

Rétt að lokum til að pirra ykkur digital-fólk þá er það sem fjallað er um að ofan ill mögulegt á ykkar tækniundrum og var einmitt ein af ástæðunum fyrir því að ég er ekki enn búinn að færa mig yfir í ykkar heim (sjá fyrri grein mína Filma eða digital).

Phoca