Nauðsynlegt apparat fyrir Digital ljósmyndara Góða kvöldið -

Snemma á þessu ári ákváðum ég og tveir vinir að halda í reisu um Evrópu og við keyptum okkur því Interrail miða. Frá því að við förum frá Íslandi og þar til að við komum aftur þá munu líða um það bil 6 vikur. Ég fór því að hugsa út í það hvernig ég ætti að huga að ljósmyndaþættinum.

Það er alveg ljóst að ég nenni ekki að taka með mér myndavél með filmum þegar ég get tekið með mér digital vél. Það er einfaldlega ekki hægt að standa í því að vera með fullan bakpoka af filmum á ferðalagi. Ég leitaði því á ljósmyndakorkana á huga.is og þar fékk nokkur ráð um hvernig væri best að haga þessum málum.

Ein ábendingin benti á tæki sem nefnist XS-Drive, sem reyndist síðan verða kosturinn sem ég datt á. XS-Drive er apparat sem hefur 4 mismunandi port þar sem hægt er að stinga minniskortunum úr digital myndavélum í. XS-Drive sér síðan um að færa myndirnar af minniskortunum inn á harðan disk sem er inni í tækinu. Í þetta tæki passa eftirtalin kort:
Compactflash, IBM Microdrive, SmartMedia, Memory Stick, Memory Stick Pro, Secure Digital og MultiMediaCard.

XS-Drive er hægt að fá í nokkrum mismunandi útfærslum. Í fyrsta lagi er til XS-Drive I sem er eldri útgáfan af þessu tæki. Nýrri útgáfan nefnist einfaldlega XS-Drive II og er helsti munurinn sá að á nýrra tækinu er kominn LCD skjár sem segir þér betur frá stöðu battería og fleira. Tækin eru tengd við tölvu með USB tengi og er um USB 1,1 að ræða í eldri gerðinni og USB 2,0 í þeirri nýrri.

Hvora gerð um sig er síðan hægt að fá í fjórum mismunandi útfærslum:
Með engum hörðum disk
Með 20 GB hörðum disk
Með 30 GB hörðum disk
Með 40 GB hörðum disk

Sjálfur fékk ég mér XS-Drive II með 40 GB hörðum disk. Upphaflega ætlaði ég að fá mér með 20 GB disk, en hann var uppseldur sem og 30 GB þannig að ég endaði uppi með 40 GB disk. Með 40 GB disk hef ég reiknað út að ég geti tekið um 400.000 tækifærismyndir. Það er ágætt ekki satt?

Með tækinu fylgir hleðslutæki, USB snúra og taska. Stærð tækisins er svipuð og á gömlu vasadiskóum. Batteríð fylgir með, en það er fast inni í tækinu (semsagt ekki AA eða AAA eða því um líkt).

Helstu gallar tækisins við fyrstu sýn eru fyrst og fremst tveir. Í fyrra lagi sýnist mér batterýið klárast svolítið hratt ef maður er oft að loda yfir á diskinn, það gerir þó lítið til ef maður á auðvelt með að komast í rafmagn, en getur verið pirrandi ef maður er staddur uppi á hálendi. Í síðara lagi þykir mér svolítið erfitt að nálgast tækið. Ég hef enga verslun fundið á Íslandi sem selur þetta tæki, eða önnur sambærileg. Því ætlaði ég að panta mér það í gegnum netið en þá bjóða netverslanirnar sem gefnar eru upp á heimasíðu framleiðandans ekki upp á að senda til Íslands. Það fór því svo að ég bað vin minn sem átti leið um í London að kaupa það.

Ef þú vilt nánari upplýsingar um tækið þá mæli ég með síðunni: www.xs-drive.com


Með kærri kveðju,
Nonni