Ég fór í mínu mesta sakleysi niður í bæ í dag og átti mér einskis óvænts von. Sólin skein, sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur við höfnina og öll útikaffihús yfirfull. En Austurvöllur kom mér heldur betur á óvart. Var búið að planta þar sýningunni “Earth From Above”. Ég hafði séð þessa sýningu áður í Kaupmannahöfn og hrifist af henni þar.
Myndirnar eru allar eftir franska ljósmyndarann Yann Arthus-Bertrand. Hann hefur í gegnum tíðina tekið m.a. myndir af dýrum og fólki. Síðustu árum hefur hann þó varið í þetta mikla verkefni, þar sem hann ferðast um heiminn og tekur myndir úr þyrlu, með styrk frá UNESCO. Myndirnar hafa svo komið út í nokkrum bókum og verið sýndar á þessum ofurvinsælu sýningum um allan heim.
Sýningarnar eru alltaf aðlagaðar að landslaginu en eiga það þó sameiginlegt að vera ókeypis og oftast utandyra. Með myndunum fylgir texti um viðkomandi stað og fyrirbærið sem verið er að mynda. Oftast er svo líka risastórt heimskort meðfylgjandi, þar sem búið er að merkja inn staðina þar sem myndirnar eru teknar. Á kortinu má labba og skoða þannig heiminn, en einnig var gaman að sjá að fjórar af sýningarmyndunum eru frá Íslandi.
Á Austurvelli er svo búið að koma upp búð þar sem hægt er að kaupa póstkort, myndir, plaköt og bækur með myndunum á viðráðanlegu verði. Að auki er þar sýningarsalur þar sem sýnt er myndand af jörðinni úr lofti á skjávarpa. Ég eyddi þónokkrum tíma í að skoða myndirnar í búðinni og ætla að koma von bráðar og kaupa eitthvað plakat í íbúðina.
Sýningin mun standa hér fram í haust, svo að það er erfitt að missa af henni ef farið er í miðbæ Reykjavíkur yfir sumarmánuðina.
Að lokum vil ég benda á síðuna http://www.yannarthusbertrand.com/us/ þar sem ég fann flestar upplýsingar. Þar er hægt að skoða flestar myndirnar, senda póstkort og fleira.