Þau sátu tvö, hlið við hlið, við strendur fjarlægs lands,
óralangt í burtu í tíma og rúmi.
Langt frá skammdeginu sem umlykur hinn mannlega heim
horfðu þau á sólsetrið saman.
Himininn var ofinn úr loforðum sem ekkert skyldi granda
þó sólarroðinn viki fyrir stjörnunum
því hvert ljós himinsins var endurskin augna þeirra.
Kuldi hafdýpisins, botnlausa og dimma, var fjarlægur,
sjávarflöturinn sléttur og rúbínrauður, ekki bærðist hár á höfði.
Öldurnar teygðu sig til þeirra en hörfuðu jafnskjótt aftur.
Tíminn leið hægt og hratt í senn,
veitti þeim skjól undir vængjum sínum,
eilífur en hverfull.
—
Þegar minnst varði kom flóðið, sem þó hlaut að koma fyrr eða síðar
því ekkert endist sem gott er.
Ein sat hún eftir, hvarmarnir tárvotir.
Höfuð hans í kjöltu hennar, þau horfðust í augu
en augu hans sáu hana ei meir.
Þau störðu aðeins köld og tóm upp í óðara sortnandi himinhvolfið.
Stjörnurnar birtust ekki þessa nótt.
—
Á hverjum degi sá hún hann,
æ síðan geymdi ásjónu hans í hjarta sér,
en hann mundi ekki hana.
Hún gaf ekki upp vonina,
óskaði þess að einn dag yrði hann samur.
Að aftur myndu þau horfa á daginn sökkva í kyrran sæ
við strendur draumaheima sinna.
Vonin og söknuðurinn átu hana upp
uns einnig hún hvarf í hyldýpi sálarkvalarinnar.
—
Aldrei mættust þau framar við fjöruborðið.