Við svífum um. Sólin glampar á spegilsléttu hafinu fyrir neðan okkur og mildur blærinn leikur sér að lokki úr hári mínu.
Ég lít brosandi til hans, virði fyrir mér andlitið. Það er unglegt en ber þó greinileg merki fortíðarinnar.
Hann ber örin vel.
Hér er hann konungur heimsins og ég drottning hans. Hér haga stjörnur og sól gangi sínum eftir glampa augna okkar.
Hingað komum við saman, leitum hælis frá heiminum. Vindar himinsins bera okkur hvert sem hjartað óskar.
Ekkert getur skaðað okkur. Við eigum þessa veröld, tvö ein, og hún á okkur.
Degi tekur að halla.
Himininn roðnar og smátt og smátt breytast öldurnar í bylgjur glórauðra rúbína.
Roðagylltir geislar sólarinnar kitla vanga minn blíðlega, með allri þeirri hlýju sem raunveruleikinn hafði aldrei veitt mér.
Skýin dansa umhverfis okkur, létt eins og hjörtu okkar.
Einhver opnar hurðina. Álögin eru rofin, raunveruleikinn flæðir inn.
Gráminn seytlar inn í vitund mína úr öllum hornum, kaldur og kæfandi.
Líf mitt hvolfist yfir mig á ný.