Öldurnar bera þig aftur til mín, kristaltærar og syngjandi.
Storminum er lokið, allt er kyrrt á ný.
Óendanlegt hafið strýkur fjörunni blíðlega, rósroði hverfandi sólar litar himininn hlýjum tónum á ný.
Kuldinn víkur, hægt og hægt.
Ég legg hendurnar létt á vanga þína, strýk fingrunum laust yfir kinnbeinin.
Smám saman færist roði í andlit þitt á ný.
Þú sefur.
Draumar þínir setja mark sitt á ásjónu þína.
Þig dreymir storminn.
Þig dreymir kuldann og regnið, þig dreymir einsemdina.
Því er lokið.
Þú ert kominn heim, heim til mín á ný, þar sem ekkert getur skaðað þig.
Sofðu í friði, draumar og minningar geta ekkert gert þér.
Ég mun bíða þín, sitja við höfðalag þitt uns þú vaknar á ný.
Tíminn mun græða sár þín og þú munt vakna endurnærður er nýr dagur rís.
Öldurnar báru þig aftur til mín, við erum sameinuð á ný.