Ég hélt að hann væri öðruvísi.
Hinn, hinn og hinn brenndu tilveru mína til grunna aftur og aftur en hann ætlaði að græða sárin á sálu minni.
Ég treysti honum. Hver voru laun mín fyrir það?
Ég hélt hann ljósið í myrkrinu sem umlukt hefur anda minn allt frá blautu barnsbeini.
Traustið er blekking, grein hins illa sem plantað var í sálu alls mannkyns til að brjóta það niður innanfrá, þar til grátur heimsins barna nístir allt niður í kjarna jarðar.
Grátur minn er samofinn kvöl barnanna.
Ég mátti vita betur. Ég átti að vita betur. Sjálfsásökunin brýtur mig í þúsund mola, glottandi að heimsku minni og barnaskap. Mínar eigin hugsanir drekkja mér, kæfa mig í sannleikanum sem ég neitaði að sjá.
Þú lærir aldrei, auma, fyrirlitlega mannskepna
Sagði ég ekki? Hann er ekkert öðruvísi en allir hinir.
Allir hinir. Líf mitt er fullt af þeim. Litlausir skuggar sem líða inn og út af sjónsviði mínu. Sálarlausar tálmyndir góðs sem blekkja mig út á bjartri sumarnótt með fögrum loforðum um betri tilveru. Áður en ég veit er deginum lokið. Myrkrið hefur umlukið mig. Óttinn læsir klónum í sál mína til frambúðar.
Myrkrið er illt.
Nóttin er ill.
Ef ljós fellur myndast alltaf skuggi. Ég er týnd í þessum skugga. Ég finn ekki leiðina út. Hann gleypir mig. Hann deyðir mig.
Ég vildi að ég gæti sofnað að eilífu og þyrfti ekki að finna til.
Ég hélt þú værir öðruvísi.