Mér fannst það góð leið að setja inn þennan texta sem er notaður að örlitlu leyti í banner ljóðaáhugamálsins ef fólk hefur ekki tekið eftir honum.


Ljóst var af morgni og lifnað í grein.
Frá langri nótt gekk ég mannauð stræti.
Við torgið ég sá einn tötrasvein.
Ég tók upp verð, - hann brá að sér fæti.
Landhlaupi var hann og lá upp við stein.
Hann leit á mig snöggt. - Ég ber það í minni.
Einn geisli braust fram, og gullið skein,
gnótt í hans hönd, en aska í minni.

Það smáa er stórt í harmanna heim, -
höpp og slys bera dularlíki, -
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki. -
En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Ein hreyfing, eitt orð, - og á örskots-stund
örlaga vorra grunn vér leggjum
á óvæntum, hverfulum farandfund,
við flim og kerskni, hjá hlustandi veggjum.
Hvað vitum vér menn? Eitt vermandi ljóð,
ein veig ber vort líf undir tæmdum dreggjum.
- hvað vill sá sem ræður? Voldug og hljóð
reis verkmanna sól yfir múranna eggjum.
—–