Vigfús Jónsson var mikill furðufugl sem uppi var á 17 öld. Faðir hans var prestur og fór Vigfús sjálfur í Hólaskóla en var þar aðeins í 2-3 vetur.

Vigfús var annálaður fyrir gamansemi og kvikindisskap og samdi oft vísur sem fóru fyrir brjóstið á samtímamönnum. Vísur hans voru oftast að mestu fallegar smíðar en enduðu oft með hrellingum eða hvössum skotum.

Brúðkaupsveislur voru í uppáhaldi hjá honum og sóttist hann mikið eftir því að troða sér í slíkar veislur og samdi þá til brúðhjónanna. Eftirfarandi vísa er þekkt í flutningi Þursaflokksins með Egil Ólafsson í fararbroddi.

Brúðkaupsvísur Leirulækjar-Fúsa

Ykkur vil ég óska góðs,
ekki er mér það bannað;
eftir staupa fylli flóðs
farið þið hvort á annað.

Brúðhjónunum óska ég
að þau eti vel smér,
fiskinn með feiknum rífi,
flotinu ekki hlífi,
ketið með kappi snæði
kvikindishjónin bæði.

Brúðhjónanna bolli
berst að höndum mér,
í tískunni ég tolli
og tala svo sem ber:
Ávaxtist sem önd í mó
eða grásleppa í sjó.
Hér á enda hnoða ég ró
og haldið þið piltar við.
—–