Mitt uppáhalds íslenska skáld er Steinn Steinarr og því langar mig að lauma honum hér með :) Afi minn las fyrir mig ljóð eftir Stein þegar ég var lítil og þetta var eitt af mínum uppáhöldum (ásamt mörgum fleirum sem kannski birtast hér eitt og eitt með tímanum).
PASSÍUSÁLMUR NR. 51
Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.
Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.
Og stúlka með sægræn augu
segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?