Í tilefni af könnuninni sem er í gangi núna og þeim umræðum sem ég hef orðið vitni að hér langar mig til að leggja fáein orð í belg. Það virðist sem svo að sumum hér er nokkurn veginn sama hvernig ljóð eru stafsett, það er jú ,,tilfinningin" sem á að komast til skila. Þetta er að vissu leyti rétt, en þó ekki alveg.
Ljóð eru miðill, táknmiðill fyrst og fremmst. Við notum tákn, þe. orð, til að koma til skila einhverri ákveðinni mynd, sögu eða tilfinningu. Ljóð er eini bókmenntamiðillinn, nema kannski mjög ljóðrænn prósi, þar sem mynhverfingar, nafnskipti og myndlíkingar geta verið af öllum toga, hvort heldur sem er raunverulegum, óraunverulegum eða yfirnáttúrulegum. Það er í höndum skáldsins að raða saman orðum þannig að lesandinn upplifi, finni eða skilji það sem átt er við.
En það þarf að vanda til verksins. Það þýðir ekki bara að kasta einhverju fram, svona eins og ekkert sé, vegna þess að lesandann þarf að sannfæra. Það virkar ekki vel á lesendur, svona flesta að ég held, ef að verkið virkar hroðvirknislegt og illa unnið. Slæmur innsláttur og léleg stafsetning virkar þess vegna ekki vel. Þannig að þegar ljóð er lesið og stafsetning er góð, tekur lesandinn varla eftir henni yfirhöfuð. En ef stafsetning er ekki góð, fer lesandinn að horfa frekar eftir fleiri villum en að pæla i innihaldi ljóðsins. Og er þá tilgangi ljóðsins náð?
Það getur enginn sagt til um hvernig á að skrifa. Ef að einhverjum dettur í hug að skrifa öðruvísi ödruvísi getur enginn bannað honum það. En flest, geri ég ráð fyrir, birtið þið ljóðin ykkar hér til að heyra hvað öðrum finnst, hvort heldur sem er jákvæða eða neikvæða gagnrýni. Og það er ágætt að temja sér þær vinnureglur að vinna verkið þannig úr hendi að gagnrýnin snúist um ljóðið, ekki um stafsetningu eða innslátt. Það tekur ekki langan tíma að fara yfir stafsetninguna. Einhver ykkar þjást af lesblindu og/eða skrifblindu, ég geri mér fulla grein fyrir því og ég er alls ekki að skjóta á ykkur. Aftur á móti er oftast hægt að fá einhvern eða einhverja til að lesa yfir fyrir sig.
Fyrir mér er reglan einföld. Ég skrifa eins og ég vil lesa. Ég vil ekki lesa texta fullan af innsláttar- eða stafsetningarvillum, þess vegna reyni ég að forðast þær. En enginn er fullkominn og texti getur aldrei orðið fullkominn, hann þróast og breytist rétt eins og maður sjálfur. En við, sem skáld íslenskrar tungu, eigum að sjálfsögðu að hafa fullt vald á okkar ylhýra móðurmáli, svo maður slái nú um sig með klisjum.
Forðumst villur!