Sælir. Er að gera ljóðabók í skólanum og ritaði niður eftirfarandi ljóð en ekki eftir hvern. Er búinn að liggja yfir bókunum og finn ekkert. Þekkir einhver hver samdi og hvenær þetta var samið?
Barn Jarðar
Hin hvíta sól þíns sigurfyllta vors,
er sál þín unga lék við gullinn straum,
hún skín í dag svo mild um þína mynd,
svo mild og björt sem forðum um þinn draum.
Þinn draumur átti upphaf sitt og líf
í óskum þeim, er kveiktu líf hjá Fást
á þeirri strönd, sem fjöllin fast við haf
svo frjáls og hrein í djúpsins spegli sjást.
Á þeirri strönd stóð vagga þín, sem var
í vorsins blóma ofin gróðri fjalls,-
og sól þíns draums gaf sælu þeim, er bar
í sínu hjarta fegurð lífsins alls.
Og þegar blærinn söng um silfruð lauf,
og sólin kyssti blómin ung og veik,
þá hló þín æska, upphaf þess, sem varð.
Og ástin sjálf var brúður í þeim leik.
Um gular mýrar gekkstu ungur sveinn
og gráa urð, er særði lítinn fót,
og upp um fjöll, með fannahvítan hatt,
sem földu gull þín við sitt bláa grjót.
Því stráin græn og blómsins bikar var
hið bjarta gull, sem lýsti draumsins mál
svo endalaust, og allt var honum vígt,
sem á sér rætur dýpst í hverri sál.
Og mynd þín skópst, er moldin angan bar,-
svo mild og frjó, í þýðum sumarblæ,-
og ástin hló í augu þín, svo tær
sem eilífð djúp í bláum perlusæ.
Þinn draumur reis sem fjallið frjáls og hár
-og fegurð blómsins var í mynd hans gjörð -
en hvarf með þér, - því börnin brenndu hann,
sem brenna hjörtun flest á vorri jörð.
Hjálp!!