Nú ætla ég að segja sögu þér,
Ég set það upp þú bara trúir mér.
Það var í fyrra vor um morgunstund
ég vakknaði af ósköp sætum blund
og klæddi mig í kjólinn rauða, nýja.
Þá kallaði hún amma: “Sussu – bía!
Þú hefur atað allan kjólinn neðan. –
Ætlarðu ekki að bíða, telpa, á meðan
að ég bursta á þér nýja kjólinn?
Ætlar þú að mölva sundur stólinn?
Bíddu, meðan beltið að þér kræki!
Bíddu, eða vöndinn strax ég sæki!
Þarna sleistu sundur bæði böndin!
Bíddu nú, á meðan ég sæki vöndinn!”
Ég vildi ekki bíða, en hentist út á hlað,
því hann er sár, hann vöndur, já, já, meir en það.
Hann er bæði hræðilega stór
og hefir stundum gefið börnum klór.
Einu sinni undan honum blæddi,
en amma gamla mig á bola hræddi
og sagði: “Telpa, hættu strax að hljóða!
Heyrirðu ekki, gamla vælu-skjóða?
Annars læt ég bola bíta þig!”
Ég beit á vör og reyndi að stilla mig.
En svo varð amma sæt og ósköp góð
og sagði: “Litla – hjartans – elsku – blóð!
Hérna færðu stóran, stóran mola.
Ég steypi í sjóinn honum vonda bola.
Vertu nú, heillin, hjá ‘enni ömmu þinni.”
Nú held ég áfram fyrri sögu minni.
Nú, nú, ég var hlaupin út á hlað
hálfu fyrr en amma vissi það.
Og það var logn, og loftið var svo blátt!
Þá lék af glaði bæði stórt og smátt.
Og blessuð sólin skein svo skært og blítt.
Í skugganum var jafnvel nærri of hlýtt.
Hún Móra litla lá við bæjarsund,
en lambið var að bíta og hlaupa niður á grund,
ofurlítil gimbur, grá með svartan fót,
nei, grá með hvítar hosur. – Sú var ekki ljót!
Snati var að vappa um völlinn til og frá.
Á varpanum sat hún kisa og sagði: “Mjá, mjá, mjá!”
Haninn sagði: “Go-go!” og hreykti sér á haug,
hunangið úr fíflunum randaflugan saug,
spóinn var að vella og væla suður í flóa,
og vængi sína þöndur lour út um móa.
Ég var nú svona að skoppa og hoppa hér og þar
og hendast ú tog suður og elta flugurnar.
Þá vissi ég ekki fyrr, en það vildi svo til,
en valt ég ofan hólinn og niður í bæjargil.
Ég meiddist ekki vitund, ég valt það eins og tunna.
En veiztu hvað, þá sat hún þar hún Gunna
og Helgi, sem sækir vatn í brunninn.
Ég sá hann kyssti Gunnu á munninn!
Þau ráku upp hljóð og hlupu beint til mín,
og Helgi sagði: “Þú ert mikið svín!”
En Gunna sagði: “Góða viltu þegja?”
En guð veit, ég var ekkert að segja.
Ég þagði eins og dúkka, dustaði bara kjólinn
og dansaði svo aftur upp á bæjarhólinn.
Svo fór ég inn til ömmu. Hún var að skera sköku.
Hún skammaði mig ekkert, en gaf mér stóra köku.
Og söguna ég sagði henni ömmu,
ég sagði hana líka bæði pabba og mömmu,
ég sagði hana öllum. – Sumum fannst það lítið,
þó sögðu miklu fleiri: “En hvað það var skrýtið!”