Ég rakst á þetta flotta og sorglega ljóð á http://palestina.is vonandi er í lagi að setja það hér inn sem kork.
Börnin sem lifa Beit Hanoun
Á friðsælum degi við fuglanna söng,
frjáls hlaupa systkin um tún.
Brosandi sólin bregður þá geislum
á börnin sem lifa í Beit Hanoun.
Blíðlega móðir þau kyssir á kinn
er kvöldar og hlýjan sinn dún
breiðir þau yfir og ber sína ást
á börnin sem sofa í Beit Hanoun.
En skjótt heyrast stúlku frá skelfileg óp
er skothríðar mark verður hún.
Bær hennar logar er blóðdropar falla
á börnin sem deyja í Beit Hanoun.
Þá fölna öll fegurstu blómin um stund,
fold eignast augun svo brún.
Blæinn hann stillir er blómsveigur fellur
á börnin sem kveðja í Beit Hanoun.
En gjöfin til okkar frá Guði er sú
að nýr dagur rís fyrir rún.
Ber jarðar spretta og bjartsýni glóir
á börnin sem fæðast í Beit Hanoun
Og á friðsælum degi við fuglanna söng,
frjáls hlaupa systkin um tún.
Brosandi sólin bregður þá geislum
á börnin sem lifa í Beit Hanoun.
Bjarni Þór Sigurbjörnsson
1989-