Mér finnst ekki ástæða til að halda því fram að ris og gróska einnar greinar bókmennta, hljóti endilega að vera á kostnað annarrar. Mér finnst skáldsagan ekki vera að taka neitt frá öðrum formum…eiginlega vil ég bara ekkert kannast við þetta. Skáldsagan á sér einnig ríka hefð í íslenskri bókmenntasögu. Mögulega verð ég minna vör við það sem þú nefnir þar sem mikið er, og hefur alltaf verið, ort og kveðið á mínu heimili og ljóðið því nálægt og lifandi í daglegu lífi. Eftir sem áður er ég mikil áhugamanneskja um allar bókmenntir og skrifa sjálf mikið mér til dundurs (ekki bara ljóð). Mjög lítið af mínum skrifum fer inná þennan vef, aðallega einungis það sem ég á í vandræðum með.
Ég lít á það sem staðreynd að ekkert sé nokkurntíman nýtt undir sólinni og að leita í ríkari mæli aftur til fyrri hefða, er í mínum huga ekkert óeðlilegur þáttur í ferli endurnýjunar. Þegar ég sé fyrir mér þróun bókmennta og annarra listgreina, get ég ekki séð neina beina línu. Heldur slaufur og króka sem hringa sig um, stundum eins og ormur sem bítur í eigin hala. Auðvitað vil ég sjá meiri grósku hjá ljóðinu. En það er einusinni svo að ekki er hægt að dæma grein, sem er í eðli sínu svolítið grasrótarkennd, einungis útfrá útgefnum verkum. Mér finnst að vísu lítið hafa verið um góðar ljóðabækur undanfarið, en finnst vera því meiri gróska undir niðri og þá sérstaklega hjá ungum skáldum sem e.t.v. eru enn að þroskast, finna sér farveg og eigin stað.
Þetta snertir mig lítið í starfi, ljóð og aðrar bókmenntir eru bara í miklum hávegum höfð í fjölskyldu minni. Segja mætti að ég hafi drukkið í mig ástina á skáldskap með móðurmjólkinni. Ég hef hingað til ekki séð ástæðu til að kvarta undan stöðnun í bókmenntaflóru landans, þótt mér finnist eins og mögulega sé þörf sé á að hrista örlítið upp í þessu. Það hefur gerst áður og ég hef fulla trú á því að endurnýjun verði í þessum greinum með nýrri kynslóð, eins og hjá þeim sem á undan fóru. Allt tekur bara sinn tíma og góðir hlutir gerast hægt. Mér finnst allavegana lítil ástæða til að berja mér á brjóst……ef ég er ekki hluti af “lausninni” þá er ég hluti af “vandamálinu”.
Við megum ekki heldur gleyma því að þótt eldri verk séu ekki lengur ný, þá rýrir það ekki gildi þeirra að neinu leyti. Nýjungar, aðeins nýjunganna vegna, geta líka verið innantómar og holar. Aðeins í hjörtum okkar vitum við hvenær sálin talar.<br><br>Kveðja,
Lynx
“You have a right to experiment with your life. You will make mistakes. And they are right too.” (Anaïs Nin)