Ég tel að það ætti ekki að vera nein lágmarkslengd fyrir ljóðin í greinadálknum. Ég get rökstutt mál mitt. Ljóðið er listform. Í listinni felst frelsi. Frelsi til að skapa. Sköpunin er frjáls… sumir kjósa orðalengingar, aðrir kjósa einfaldleikann. Gæði ljóðsins fer ekki eftir lengd þess heldur innihaldi. Ég hef oft séð ljóð í greinadálknum sem eru að “réttri lengd” en eru svo illa stafsett að varla er hægt að skilja þau. Ljóð sem hafa svo óvandaða framsetningu ættu betur heima í rusladallinum. Eins eru dæmi til um orðfá ljóð sem hafa þó mikla meiningu á bak við sig og eru mjög kraftmikil.
Ég skrifa þetta vegna þess að ég sá í svari við grein hér á þessu áhugamáli að “hæstráðandi” notaði mælistiku við val á ljóðum inn í greinasafn, aðallega vegna tímaskorts.
Það er vegna þessa tímaskorts að rusl, þ.e. illa frágengin ljóð, slæðist hér inn á milli háklassa ljóða. Mér þykir það miður, ekki síst vegna ímyndar ljóðaáhugamálsins útávið.
En þar sem ég var að tala um frelsi áðan þá datt mér í hug að nefna að það er einnig frelsi lesandans til að fá að kynnast mismundandi gerðum ljóða, bæði stuttum og löngum jafnt sem hefðbundnum og óhefðbundnum.
Með því að skipta greinasafninu svona niður eins og gerist í dag þá felst í því jafn mikil móðgun við styttri ljóða unnendur alveg eins og við unnendur atómljóða ef óhefðbundin ljóð væru á korknum.
Ég legg til að umsjónarmenn þessa áhugamáls fari að vinna verk sín betur og LESA það sem þeir eru að setja hér inn. Ef ljóðin standast ekki þá stafsetningarstaðla sem hér ættu að vera ætti að gefa höfundi kost á því að lagfæra stafsetninguna í ljóðinu sínu þannig að hann gæti sent það inn að lokinni lagfæringu.
Með þökk fyrir að koma þessu sjónarmiði á framfæri.