Svo mánablíð og björt sem mjöll,Tómas Guðmundsson
ó, björt sem mjöll skein ásýnd þín.
Og hingað komstu kvöldin öll,
og kvöldin öll var drukkið vín.
Og stundin leið við og ljóð og ást,
við ljóð og ást, ó glaða stund,
og ljósu armar, liljumund.
Ó, ljúfa stund, unz gæfan brást!
En hví skal trega horfinn dag,
sem heiður, bjartur framhjá rann?
Og hví skal syrgja ljúflingslag,
sem lífsglaðast í hjörtum brann?
Um ást og vín bað æskan þín,
og alls þess naut sá þúsundfalt,
sem lifað hefur líf sitt allt
einn ljúfan dag, við ást og vin.
Ei þekkti eg ást, sem aldrei dó.
En ást, sem gerði lífið bjart
um stundarbið, ég þekkti þó.
Og þegar næturhúmið svart
um sálu mína síðast fer
og slökkar augna minna glóð,
þá veit ég hvaða ljúflingsljóð
mun líða hinzt að eyrum mér:
Ó, fagra veröld, vín og sól, ég þakka þér!
——————————————–
Mitt uppáhaldsljóð er eftir Tómas Guðmundsson en það er hann líka, í uppáhaldi.
Mig langaði bara að setja þetta hér inn og vita hvort fleiri væru á sömu skoðun um hann Tómas og ljóðin eftir hann.