Ljóð í október
Minn fjórða tug að himni hóf ég
horfinn úr svefni garða og hafnarskóga
og skelfiska í lóni og hegra-
prestvígð ströndin
hneigði ungum degi
með sjávarþulu og kvaki máva og kletta
er knúðu léttar fleytur ánetjaðan vegg
þá andrá steig ég
niður fæti
í morgunsvæfum bænum og hélt áfram.
ég hóf minn árdag meðal sævarfugla
og fugla vængjaðra skóga og nafn
mitt flaug yfir bæi og hvíta hesta
-ég reis á fætur
eitt regnþunggt haust
og reikaði út í regn mína liðnu daga.
Háflæði og hegrinn flúði er ég sveigði inn veginn
yfir landamærin
og öll hlið bæjarins læst er bærinn reis af svefni.
Himinfull þjótandi lævirkjasveims og runnar vegarins brumandi af blístri
sóþrasta og októbersól
symrandi
á öxl fjallsins,
hér var gott veður og raddfagrir söngvarar
sungu þann morgun í sól er ég hlustaði
á klingjandi regnið
í köldum vindi
í kulnuðum viðnum hið neðra.
Fölt regn yfir fjarlæga höfnina
og yfir sædrifnar kirkjur á stærð við snigla
með horn gegnum mistur og kastalinn
brúnn eins og ugla
en allir garðar
blómstruðu vori og sumri í végelgri goðsögn
handan við landamærin og undir lævirkjasveimnum.
Þar gat mig dreymt
minn árdag að kvöldi
meðan veðrið snerist í hringi.
Það snerist og hverfðist á burt og niður
aðrar víðáttur og bláhvelft heiði
streymdi aftur unaðslegt sumar
með epli
perur og rauð ribsber
og ég sá þá svo ljóst að þar hverfuðst barns
gleymdir morgnar í leiðsögn móður
gegnum dæmisögur
um sólskin
og sagnir um grænar kapellur
og tvílæstan leikvang barnsins
að tár þess urðu mín tár og þess hjarta mitt.
Þetta var skógurinn,fljótið og hafið
þar sem barnið
í hlerandi
ládeyðu sumarsins hvíslaði gleði sinni
og trjám og steinum og fiskum í lóninu.
Og undrið
söng lifandi
ennþá í vötnum og söngfuglum.
Og þar gat mig dreymt minn árdag að kvöldi.
meðan veðrið snerist í hringi.og hin sanna
gleði hins liðna barns söng brennandi
í sólini
minn fjórða tug
að himni hóf ég á miðju sumri
þótt bærinn hvíldi hið neðra í októberblóði
ó megi sannleikur hjartans
enn verða sunginn
á þessari heiði að ár hvörfum.
Hannes Sigfusson íslenskaði.
Ljóðið birtist í Tímariti máls og menningar ,marz 1956