Ritdómur Morgunblaðsins um Metrófóbíu Birtist 3.7.2004
Hin ljóðrænulausa ljóðlist

METRÓFÓBÍA er þriðja ljóðabók Björns Axels Jónssonar, rúmlega tvítugs skálds frá Neskaupstað, gefin út af Pjaxa-útgáfunni.
Hugtakið metrófóbía er fengið úr sálfræði og þýðir “sjúklegur og staðfastur ótti eða hatur við ljóðlist” og er afskaplega viðeigandi titill á þessa ljóðabók. Stílbrögð hennar eiga nefnilega lítið ef nokkuð sameiginlegt með ljóðsögunni nema ef vera skyldi alger uppreisn gegn firrandi stílbrögðum og upphafning væmninnar/einlægninnar sem ljóðtungumáls. Ljóðabókin Metrófóbía er ljóðlist sem tilfinningasemi í sinni hreinustu mynd. Hún lónar á kafi í biksvörtu þunglyndi og kíkir sjaldan ef þá nokkurn tímann til sólar. Þunglyndið er ekki litað neinum flóknum myndlíkingum eða tilþrifamiklum stílbrögðum, þvert á móti lýsa ljóðin því yfir á eins einfaldan máta og skáldinu er unnt að ljóðmælandi sé “einn/ í þúsund ár” “einmana sál,/ föst í eigin líkama” “einn,/ einmana/ og vil vita/ hvert ég er að fara” og “þunglyndur hálfviti/ með ofsakvíða og félagsfælni”.
Það verður að viðurkennast að þegar ég byrjaði að lesa bókina var það ekki fjarri mér að álykta sem svo að hér færi ljóðaskussi af hrikalegustu gerð. Einstök ljóð virðast sett saman af stökum klunnaskap og yfirgengilegri tilfinningasemi þess sem hefur ekki fulla stjórn á kirtlum sínum - enn eitt ungskáldið sem vælir undan því hvað það á bágt í drafandi leiðinlegum hátónum sem halda ekki, svo rödd skáldsins veður úr einum áhrifavaldi í annan og hljómar aldrei eins og ein manneskja, heldur skuggar þeirra skálda sem skutu sig á liðnum öldum. En eftir því sem leið á lesturinn varð mér betur og betur ljóst hversu óhugnanlega hrein og tær þessi rödd metrófóbíunnar er og hversu mikil uppreisn hún er gegn hinu staðnaða ljóðtungumáli Íslendinga sem ryðjast hver um annan þveran til að bauna fram “kraftmiklum líkingum” úr “íslenskri náttúru” svo lesandinn fær það á tilfinninguna að hann sé með annan fótinn í Niflungahringnum og hinn steindan fastan við eitthvert hálendisgrjótið - og svo þegar aumingja lesandinn hefur dregið saman þræði þessara ljóða kemur oftar en ekki í ljós að þau segja ekkert meira en “ég var skotin(n) í stelpu/strák” eða “ég var fullur á bar” - tilþrifin voru öll til einskis, ekki list frekar en langstökk eða kappakstur, nema síður sé.
Þegar ég svo fletti upp titlinum á bókinni áttaði ég mig á því að hér var ekki um neinn misskilning að ræða. Metrófóbía er greinilega mjög andljóðræn ljóðabók og það þrátt fyrir að vera rómantísk tilfinningasemi. Hún á ekkert skylt við kaldranalegar og fjarlægar lýsingar Bukowskis, eða Hals Sirowitz - heldur er hún þvert á móti hin Rimbaudíska afstaða til tilfinninganna, ofkeyrsla og upphleðsla, hormónafyllirí á máta sem hormónafyllirí hefur ekki verið reynt áður: ljóðrænulaust.
Jafnvel þar sem Björn nær snertingu við “ljóðsöguna” með rími heldur hann sig frá því að beita fleiru en einni brellu í einu svo ekkert verður úr stuðlum, höfuðstöfum eða kviðum:

Ég sé mig hér,
loksins með þér.
Elsku ástin mín,
nú ertu loksins sólin sem skín.

Þetta er í raun ekki ósvipað að formi og ambögur Kaffibrúsakarlanna nema hér er ekkert grín á ferð, heldur þvert á móti knappt skorin, síendurtekin tjáning einlægs ljóðmælanda. Ljóðmælandinn beygir sig ekki að tjáningarmátum ljóðlistarinnar, heldur brýtur þess í stað sjálfar “reglurnar” og segir nákvæmlega það sem honum sýnist - eða öllu heldur hvernig honum líður. Enda er bókin eins og áður sagði eins konar upphafning tilfinningaseminnar sem tungumáls. Hinir þungu hnífar sem leggjast í síður lesandans eru margir en ekki eru þær kraftminni þessar endurtekningar einmanakenndarinnar - sem virðist koma upp í hverju einasta ljóði og stundum oftar en einu sinni. Ljóðmælandi virðist sannfærður um að enginn vilji vera nálægt honum og kvelst þess vegna í einangrun. "Hví er öllum/ sama um mig,/hvað hef ég gert? [...] og eini sem/ nennir að tala/ við mig/ er ég“.
Ástin kemur nokkrum sinnum við sögu en þá er eins og hún sé frekar sett fram til að leggja áherslu á status ljóðmælanda sem einangraðrar sálar. Ástin er stunduð úr fjarlægð, eins og yfir dansgólfið:

Það er sem ég stari
á þig
því það er eins og þú sért
engill frá himnum.
Þú ert himnesk að sjá
en ég veit ekki hversu góð
þú ert.
Ég hugsa um það
dag og nótt.
Þú ert engill!

Ein og sér virðast ljóðin úr bókinni fyrst og síðast vera fúsk en sem heild er lesningin bæði hrollvekjandi og átakanleg. Metrófóbía er allt annað en falleg bók, allt annað en haganlega samansett skrúð. Metrófóbía er angistarfullt kvalaóp sem er borið fram svo nakið, kalt og hrátt að lesandinn á aldrei möguleika á öðru en að játa fulla uppgjöf fyrir hinni ljóðrænulausu ljóðlist.

Eiríkur Örn Norðdahl

*Bókin Metrófóbía fæst hjá höfundi á 1000 kr. sendið skilaboð á ”baj" eða sendið email á bjorna@simnet.is ef þið hafið áhuga á eintaki.