Ung
og heit
sigldu þau
seglum þöndum

um lífæð ástarinnar
í leit að hjarta

velsköpuðu
hjartalaga hjarta
með hólf fyrir bæði.

En funheitt blóðið
bar hann burt
með blik í auga.

Um háræðarnar hríslast hún
með hugaróra

og yrkir
einmana ljóð
um ólgandi þrá.

Í ósæð
og afkimum hjartans
óma ástríðustunur
svo ákaft
er elskendur mætast
að eldrautt hjartað missir slag

í bylgju af blóði
berst hann
burt

hún hríslast um háræðar
- og stynur.