Únglingurinn í skóginum (Halldór Kiljan Laxnes)
Mig dreymdi ég geingi útí skóg einsog í fyrra þegar ég gekk útí skóg með stöllu minni; og stóð ein í rjóðrinu við lækinn.
Og þá kemur únglíngurinn í skóginum með úngan teinúng í hendi, klæddur skikkju ofinni úr laufum.
Og hann hleypur frammá bakkann, lýtur niðrað læknum, eys upp vatni í lófa sér, þeytir á loft og seigir:
(Hann: )
Eia!
Eia perlur! Eia gimsteinar!
Eia leikur
leikur í sólskini
útí skógi!
Hvert fór skógurinn,
kysti animónur og hló,
animónur og animónur
og fór að gráta?
Táta,
kondu táta,
kondu litla nótintáta
að kyssa pótintáta
útí skógi!
(Hún: )
Svei attan.
(Hann: )
Títa,
litla grýta,
liljan hvíta,
mýrispýta,
lindargullið og eldflugan mín,
hér kem ég að sjá þig, sjá þig,
Máni frá Skáni
kominn af Spáni
til að sjá þig,
spámáni frá Skáni
skámáni frá Spáni
frá Skámánaspáni
og á þig, á þig –
(Hún: )
Aldrei skaltu fá mig!
(Hann: )
Ó ég veit alt um þig
alt hvað þú ert lítil
lítil og skrítin,
því ég er Safír
frá Sahara í Aharabíu
Saba í Abaríu
og veit alt, Abari frá Sabarí
Saraba í Arabíu
og veit altaltaltaltaltaltalt
Alt
(Hún: )
Þú veist ekki eitt, ert ekki neitt.
Hann laut yfir lindina, las það sem speglast í gárunum.
Og degi tók að halla
og dagur tók að hljóðna,
eólan dúrar,
aftanskin í lundi.
Meðan kliður dagsins
í kveldsins friði
eyddist
og niður lagsins
í eldsins iði
deyddist
rétti hann mér höndina, benti til sólar og saung:
Eia ég er skógurinn
skógurinn sjálfur:
Morgunskógurinn drifinn dögg
demantalandið;
ég er miðdegisskógurin,
málþrastarharpan;
kvakandi kvöldskógurinn
rökkurviðurinn
reifður hvítum þokum;
grænklæddur gaukmánuður
guðlausra jarðdrauma,
himneskur losti
heiðinnar moldar.
Og skepnan öll drekkur sig drukkna undir mínum laufum.
Ég er hundraðlitur haustskógarsinfónninn
og sjá, blöð mín falla,
þau falla til jarðar
og deyja
troðin stígvélum fuglarans.
Og haukarnir setjast á hvítar greinar.
Og hundar galdramannsins snuðra í föllnum laufhaddi mínum.
Þá þótti mér ég fara að gráta og þá vaknaði ég.