Fyrir um sjö árum síðan var ég lítil gelgjustelpa í brjálaðri ástarsorg. Þá samdi ég þetta ljóð. Varla var liðinn mánuður frá því að ljóðið var ort þegar mínum ágæta 9. bekkjar íslenskukennara datt í hug að kenna mér bragfræði. Þegar ég hafði lært hana og vildi sýna einhverjum ljóðið mitt þá vildi ég að sjálfsögðu breyta því fyrst og laga það að nýju ljóðlægu heimsmyndinni minni. Og það hef ég reynt annað veifið alveg síðan en aldrei tekist. Ég vil ekki breyta því mikið, mér þykir vænt um það og vil alls ekki skemma barnaleikann í því og þess vegna tekst mér ekki að laga það. Þetta er að gera mig brjálaða og hef því ákveðið eftir öll þessi ár að leita til ykkar mín ástkæru ljóðaséníoggúrú um hjálp. Svona lítur ljóðið mitt út:

Í þúsund nætur ég vakti og beið.
Í þúsund nætur í hjartað mig sveið.
Einmana, vonlaus, svikin og þreytt;
ég gat ekki gleymt þér, ég gat engu breytt.

Ég beið og ég grét og ég saknaði þín
og þráði að fá þig aftur til mín.
Svo blind að ég hélt að þú elskaðir mig.
Svo blind því að einan ég elskaði þig.

Svo birtist' einn morgunn með bros á vör
og aftur skaut Amor í hjarta mitt ör.
Lygar og loforð dáleiddu mig
því ástin er blind og ég elskaði þig.

En fyrirheitunum gleymirðu fljótt.
Þú yfirgafst mig meðan skýldi þér nótt.
Á ný er ég einmana, svikin og þreytt;
ég get ekki gleymt þér, ég get engu breytt.


Veriði nú endilega svolítið hjálpsöm við mig því þetta er eins og ég segi að gera mig brjálaða.

P.s. Ég á annað svona sem ég set líka inn ef þetta gengur vel.