Þið verðið að fyrirgefa fávisku mína. Ég kem ekki oft inn á þetta áhugamál og tek ennþá minni þátt. Þannig er að ég er að reyna að skilja. Ég hef ekki mikinn áhuga á ljóðum en kann meta þau góðu þegar ég rekst á þau. Nú langar mig að vita hvers vegna þetta áhugamál er sett upp eins og það er. Allt gengur út á að þátttakendur sendi inn frumsamin (og misgóð) ljóð. Fólk hérna virðist almennt duglegt að senda inn ljóð en ekki eins duglegt að ræða þau. Hvert ljóð fær nokkur svör sem lúta yfirleitt að gæðum ljóðsins en afskaplega litla umfjöllun - kannski vegna þess að í mörgum tilfellum bjóða gæði ljóðsins ekki upp á miklar pælingar. Einnig virðist sem flestir eigi í erfiðleikum með að segja skoðun sína af hræðslu við að móðga ljóðskáldið og kjósa því að segja sem minnst (ég geri mér grein fyrir því að það eru undantekningar en ætla að leyfa mér að alhæfa aðeins). Hérna er þá spurning mín: hvers vegna er enginn umræða um þekkt ljóð og ljóðskáld? Hvers vegna sendir enginn inn eitthvað ljóð eftir sinn uppáhalds höfund sem henni/honum er hjartfólgið og býður fólki að taka þátt í umræðu um það? Skrifar kannski grein um hvað þetta ljóð segi henni/honum. Býður fólki að taka þátt í skoðanaskiptum. Þá gæti fólk rætt opinskátt um ljóð án þess að eiga það á hættu að særa tilfinningar óharnaðra unglinga sem eru að stíga sín fyrstu hikandi skref á ljóðabrautinni og um leið mundi (hugsanlega) opnast augu fólks fyrir fjölbreyttari efnivið og brögðum ljóðlistar heldur en hægt er að finna á þessu áhugamáli í dag. Þá gætu líka plebbar eins og ég sem hafa engan áhuga á að skrifa ljóð en meiri áhuga á að ræða þau tekið þátt.<br><br>—————–
*Evil things have plans. They have things to do!*
——————