Svona ummæli dæma sig í raun sjálf. Ef þú getur ekki lifað inna hefðar, þá getur hefðin ekki tekið við þér. Þannig fer fyrir mörgum skáldum sem eru efnileg, þau gleyma því að ljóð hafa verið ort áður en þau urðu til og þess vegna reyna þau sífellt að finna upp hjólið. Hvers vegna ekki að kunna bragreglur, hrynjandi, myndir og myndhverfingar, ef það gerir mann aðeins betri? Það er ekki samasemmerki á milli þess að þekkja hefð og að yrkja inn í hana. Ég tel sjálfan mig vera langt frá því hefðbundið skáld, ég nota ekki bragreglur, forðast rím og stuðla og læt myndmálið ráða. En það er ekki þar með sagt að ég geti ekki og ráði ekki við hitt. ég bara kýs að gera það ekki. Þau skáld sem ráða ekki við rím, stuðla eða hvaða aðra bragreglu, en yrkja óhefðbundið, er að vegna þess að þau kjósa það? Eða kennir neyðin naktri konu að spinna? á meðan þau skáld spinna sér þunnan bol, þá vil ég geta, með hjálp hefðarinnar, spunnið þykkan vetrargalla sem stenst kröfur samtímans og hefðarinnar.
Ljóð er nefnilega svo miklu meira en bara ‘pointið’. Því fyrr sem skáld kemst að því, því betra. Það er nefnilega ástæða fyrir því að sum skáld hafa veri ðkölluð góðskáld, þjóðskáld oþh. en önnur týnst og gleymst eftir því sem ryk liðinna ára sest á þau.