Hjartað dansar og syngur,
Ég leik við hvern minn fingur
Í dag er allt svo gott
Í dag er allt svo einfalt og flott
Þó það blási og rigni
Þó það snjói og allt frýs
Þá veit ég að það lygni
Og sólin aftur rís
—
Myrkrið grúfir yfir mér
Heldur mér föstum í örmum sér
Og niður kinnar renna tár
Því í hjarta, ég ber sár
Enginn er söngur, né dans
Því þungt er hjarta manns
Hvað skal gera, hvert skal fara
Hvar skal ég leita mér svara
—
Ég hata það, hata það allt
Ég hata það þúsundfalt
Þá köldu daga sem aldrei líða
Í myrkri, ég verð að bíða
Ég hata sjálfan mig
Allan heiminn, þig og þig
Ég hata það af öllu hjarta
Því enga sé ég framtíð bjarta
—
Ég horfi tómum augum á
Lífið sem rennur hjá
Enn ekkert finn í hjarta mér
Engar tilfinningar ber
Tilfinningar ég bar, áður fyrr
En núna stendur hugur kyrr
Ekkert vekur ást né heift
Ekkert við mér getur hreyft
Eitthvað virðast lyfin gera
Á allar tilfinningar skera
Og sviptir mig mannleikanum
Svo ég lifi aðeins í tómleikanum.