Báturinn vaggar við mannlausan sandinn
Veturinn kaldur er kominn til að vera
Kuldinn sest niður og brýnir beittan brandinn
Báran frýs og vindarnir kinnarnar skera.

Húsin hvít af hrími standa auð í gráu hlíðinni
Horfir gamli maðurinn á einmana fjallið
Kvótinn kom og kvótinn fór í peningahríðinni
Konungdæmið á fjörðunum – er núna löngu fallið.

Borgin heillar með hillingum um meira frelsi
Horfin úr þorpum þangað streyma sveitabörn
Draumurinn um fé – hús og hlýju undir pelsi
Hefur tekið yfir hugsunina um útgerðartörn.



En hvað er í borg sem að býður upp á hlýju?
Bilun og stress sem að hryggir fólk að nýju
Brátt hugurinn leiður að nýrri hlýju leitar
En horfinn er vegurinn langi til sveitar.



Báturinn tómur við bryggjuna vaggar
Brjálaður púki sigurfánanum flaggar
Fjallið er fallið og snjórinn frystir bæinn
Frostbitinn maðurinn horfir út sæinn
Á miðunum bárurnar bærast nú einar
Brimbitin húsin hrunin – nú steinar.



Draugarnir ráfa stórstígir um strætin
Stundir hamingju og ríkidæmis liðnar
Bryggjan - þar áður glumdu gleðilætin
Gengur í sundur – undan sorginni gliðnar.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.