trén varpa skugga á sálarlausa maura
en nýtast svo bara í veggi og staura
eldivið til að hita upp ískalda menn.
andlit svo sorgmædd, máð og grá
eiturský hylja nú himinhvolf blá
sýndu mér náttúru sem lifir enn.

hendurnar blóðugar af endalausum syndum
brosin skekkjast á gömlum myndum
eitraður arfinn á samviskunni grær.
forfeðranna sök - yfir heiminn lekur
smákrakkinn ákærður - dæmdur - sekur
sýndu mér manneskju sem ennþá hlær.

í sjálfum mér blóðið blandast við sýru
meðan útlit mitt hylst af silkinu dýru
fátækar þjóðirnar deyja úr hungri.
áfengispeningur minn gæti fætt heila þjóð
en heldur bara áfram að menga mitt blóð
drekkir allri samvisku minni svo þungri…
sýndu mér gleðirík og hamingjuljóð.

yfirborð jarðar er brunnið vítislogum
samviskan nú - skiptir engum togum
að snúa hringrás nú - er orðið of seint
á mengun við höfum - börnin okkar matað
svo við höfum á enda öllu sakleysi glatað
sýndu mér mann með hjartað enn hreint.

sýndu mér…
hlýjaðu mér…
sýndu mér það fagra
ef það finnst enn…

sýndu mér það fagra
áður en ég brenn…

ljótleikinn hér hleypir tárum í mín augu
eykur og dekkir mín gríðarstóru baugu
ég veit að hér finnast enn góðlyndir menn.
augu mín lokuð - orðin of veik
opnaðu þau aftur á nýjan leik
sýndu mér fegurð áður en ég brenn.


-pardus-

***Ég er nú ekkert svo brjálaður út í heiminn sko ;þ En aftur á móti sá ég frétt um það hversu stórt mengunarskýið er yfir Asíu núna að það drepur milljónir árlega! Það er dálítið til að hugsa um!***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.