Á beddanum liggur djöfullinn sjálfur
saklaus að sjá eins og nýfæddur kálfur

“Ó svei því, ó svei því, hvað get ég gert?
við mér blasir andleysið bert

allt er svo tilgangslaust, voðalegt, snautt

Og mannkynið!

það var áður eitt illsku-bað!”

“Fyrst þú ert hér á annað borð”,
Doktor skúli tekur upp blað
og skrifar hvert einasta orð.

“Segðu mér meir,
hvað amar að,
ég þarf nefnilega að vita það”

Kölski hefur upp raustina,
sem, þrátt fyrir hvað allir halda
líkist mest kjækróma kveifarkveini:
“Æ, hvers á ég að gjalda?

Hér áður fyrr var gaman að lifa
(en lifandi kölski vart taldist)

Að draga á tálar,
að kvelja
að spilla
fólki sem Guð málar
að merja
að villa
koma svo heim í helvíti
og hlusta á vein fordæmdrar sálar.

Og mannskepnan, hún kvaldist.

En nú er þetta bara það sem gerist og gengur,
ekkert af þessu er sérlega spennandi lengur.”

“Hmm”, segir sáli og krotar og krotar.
“Aha, segir sáli og krotar meira.
”Athyglisvert,
sórskrýtið,
furðulegt,
hreint ekki lítið,

En Guð er dauður,
og því ertu snauður."

(nei, nú hefur í öll skjól fokið)

Kölski hugsar eitt augnablik.
Hugsar svo meir, hefur eitthvað að segja…

En tímanum er lokið!