ást (frumlegt ekki satt?)
Ég elska þig. Ég elska þig í alvörunni. Samt langar mig stundum ekki að elska þig lengur, af því að það er sárt. Það er mjög sárt að elska einhvern sem elskar mann ekki á móti. Ef ég sé þig ekki í nokkrar vikur, þá er eins og minningin um þig dofni pínu. Ég man alveg hvernig þú lítur út, og ég man hvernig augun þín eru, og hvernig þú brosir og hvernig þú talar, en ég á erfitt með að púsla því saman. Svo eftir nokkra mánuði, þá er röddin týnd, en brosið og augun sitja enn í minninu. Þá líður mér vel, af því að þá held ég að ég elski þig ekki lengur. Og ég fer að hugsa um einhvern annan, en það er samt ekki eins og þegar ég hugsa um þig, því að myndin af þér er alltaf þarna rétt undir, og bíður eftir því að þessi nýi hverfi burt. Og svo hitti ég þig aftur. Og þá fýkur allt annað sem ég hef að hugsa um í burtu, og þú ert einn eftir. Ég er kannski rosalega áhyggjufull, eða sorgmædd eða reið, en svo sé ég þig, og þá hverfur það allt. Og ég tala við þig og þú ert ennþá yndislegur. Og svo kveðjumst við. Og í marga daga á eftir kemst ekkert annað að í hausnum á mér en þú. Og svo þegar myndin fer að dofna aftur, þá verð ég reið út í þig, því að í ég vil að þú elskir mig og sért hjá mér, því þá þarf myndin ekki að dofna. Ég óska þess stundum að við gætum verið saman, þó það væri ekki nema í eina viku, og svo skilið og aldrei talað saman aftur. Ég vildi að ég kæmist að því að þú værir algjör skíthæll. Mér er sama hvernig, bara að ég hætti að elska þig svona mikið. Ég óska þess frekar en að þú elskir mig, því að ég er raunsæ. Ég veit að menn eins og þú elska ekki stelpur eins og mig. Samt finnst mér stundum eins og þú sért að segja mér eitthvað. Þú gefur mér eitthvað smáatriði, koss á kinnina, þriggja sekúndna bros, nokkur orð, og óskhyggja mín tekur það og snýr því upp í dulbúna ástarjátningu. En þetta er það sem ég fæ fyrir að verða ástfangin af góðum strák. Góðir strákar særa mann aldrei vísvitandi. Þeir segja manni ekki hreint út að þeir vilji mann ekki. Góðir strákar segja bara kurteislega að þeir séu upp með sér að maður sé hrifinn af þeim, en þeir geti bara ekki elskað mann á móti. Sem er ekkert sniðugt, vegna þess að það gerir þá ennþá elskulegri. Ef þú segðir bara hreint út: “ég elska þig ekki, farðu!” þá gæti ég bara hugsað “hann er nú ekki eins góður og hann virtist vera í fyrstu”, og hætt að hugsa um þig. En þú gerir það ekki og ég held áfram að velta mér uppúr fáránlegum draumórum.