Las þessa grein og setti í kjölfarið hugrenningar mínar á blað.

Sérhvert ár deyja 500.000 börn í Afríku á deginum sem þau koma í heiminn og um 1,16 milljónir á fyrsta ævimánuðinum.
Aðeins þyrfti um hundrað króna framlag á hvert barn til að bjarga lífi 800.000

Jóhannesarborg. AP, AFP. | Sérhvert ár deyja 500.000 börn í Afríku á deginum sem þau koma í heiminn og um 1,16 milljónir á fyrsta ævimánuðinum. Aðeins þyrfti um hundrað króna framlag á hvert barn til að bjarga lífi 800.000 þeirra á ári hverju, að því er kemur fram í nýrri skýrslu, sem unnin var af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, samtökunum Save the Children, og sérfræðingum nokkurra alþjóðlegra hjálparsamtaka.
Er niðurstaða skýrsluhöfunda sú, að hægt væri að koma í veg fyrir barnadauða í álfunni í tveimur af hverjum þremur tilfellum með ódýrum og einföldum aðgerðum sem eru fyrir hendi en ná ekki til fátækra.
Jafnframt kemur þar fram að 15 af 20 ríkjum heims, þar sem barnadauði er mestur á fyrstu 28 dögunum eftir fæðingu, sé að finna í Afríku. Alls er barnadauðinn 41 barn á hverjar þúsund fæðingar, sem er það sama og í Englandi fyrir 100 árum. Helstu orsakirnar eru taldar sýkingar, fyrirburður og köfnun. Þá eru HIV-veiran og niðurgangssýki orsakavaldar í þessu samhengi.
Eins og fyrr segir væri hægt að bjarga mörgum mannslífum fyrir aðeins um hundrað krónur á barn, en það er kostnaðurinn við að útvega hæfa ljósmóður, meðhöndla sýkingar og fræða mæður í álfunni um hreinlæti, hvernig eigi að hafa barn á brjósti og halda á því hita.
Auðvelt að fækka dauðsföllum
“Ef þessar nauðsynlegu aðgerðir bærust 90 prósentum kvenna væri hægt að koma í veg fyrir 67 prósent þessara dauðsfalla,” sagði Joy Lawn, hjá samtökunum Save the Children, sem starfa undir merkjum Barnaheilla á Íslandi. Að hans sögn er fyrsta vikan í lífi barns mikilvægasti tíminn til að koma í veg fyrir að HIV-veiran berist frá móður.
Barnadauði er mestur í Líberíu þar sem hann er um 66 dauðsföll á hver þúsund börn. Koma Fílabeinsströndin og Síerra Leóne næst.


Svartir Englar.

ljóshærðir hrokkinkollar á gömlum málverkum
svo angurværir og fallegir, með hvíta vængi
spila þeir á hljóðfæri sín.
Undir myndunum takast börnin okkar á
um skemmtilegasta dótið.
En vestur í Afríku eru aðrir englar.
Deyjandi liggja þeir
eins og hráviði um álfuna.
500.000 lifa ekki
fæðingardaginn sinn.
1,16 milljónir ekki
fæðingarmánuðinn.
800.000 mætti bjarga með eitt hundrað krónum
á barn.
En 80 milljónir eru náttúrlega stórfé,
Í kreppunni hérlendis.
Byrjum á því að skera niður þróunaraðstoð !!
Tölur á blaði,
lesnar í dag
gleymdar á morgun.
Og áfram deyja litlar manneskjur
litlir svartir englar
í Afríku.
Á meðan við leifum steikinni
á sunnudögum.
ST -2010