Innblástur þessara vísna er atvinnuleysi mitt frá og með 10. desember og vesenið við að fá allar bæturnar mínar greiddar frá Vinnumálastofnun og við að ná yfirleitt í Greiðslustofu og fá einhver svör. Fremur en að berja höfði við vegg kaus ég að yrkja mig frá hugarvílinu. Ég bendi áhugasömum sérlega á innrímið. Það má syngja fyrstu tvær vísurnar auk fjórðu við kvæðalag stemmunnar “Upp í háa hamrinum býr huldukona”.


Borgunar ennþá bíður Einar bóta sinna
þörf er sveini verks að vinna
víst þarf líka að blóta minna.

Beðið hefur bráðu geði bróðir kvinnu
Líðan verður leið í sinnu
leita mun ég áfram vinnu.

Ekki dugar deigur hugur, drúpa haus
að seyðið vinnu súpa laus
sannlega ekki hvað eg kaus.
Svartagallsins rek ég raus
ræð ég kalli verði maus*.

Fremur en að þegja um þetta
þunnu hljóði
verkin slugsa eins og slóði
slæ ég þessu upp sem ljóði.

Ljóðsins hróður löngum þykir leiðum góður
Léttist róður, lifnar sál
Leikur óður kátt um mál

Fram ég bráðum ber nú öskur
í bætur langar segg
átta hundruð níutíu og átta flöskur
áfram hang' á vegg


*maus= að gera eitthvað sem krefst einbeitingu og tekur langan tíma.