Fönnin köld fyllir mín skjálfandi vit
og fæturnir þungir klífa kletta.
Dumbrauðir logar dansandi kerta,
draga úr kulda, lund mína létta.

Ofan úr fjöllum ég nálgast bæinn
úfið skegg mitt er nú orðið freðið.
Þó fönnina finn ég kalda á kinn
framundan börnin geta vart beðið.

Fögur í eyrum mér óma nú lög
er með veggjunum læðist ég kátur.
Á svelli ég stirðlega renn og dett
svo úr munni mér þeysist fram hlátur.

Ég fyrir munn gríp en flissa nú samt
fögur lögin á svipstundu þagna.
Í átt að mér skarinn æstur hleypur
og mér samstundis byrjar að fagna.

Brosandi hring um mig börnin mynda
biðin eftir gjöfunum er þeim ströng.
Ég glotti við tönn, gjöfunum dreifi,
glaðvær þau bresta svo aftur í söng.

Ég kveð börnin kátur með bros á vör
í kófi geng til fjalla að nýju.
Minnast mun ég þessa næsta árið
því minningin heldur á mér hlýju.

Í kuldanum hátt upp‘á fjöllum einn
minning þessi heldur á mér hlýju.


-Danni, jólin 2009-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.