Ég er fastur í óendanlegum Rómeó komplex,
tilbúinn að deyja fyrir Júlíu,
tilbúinn að deyða fyrir ástina.
Reiðubúinn að hunsa allt rökrænt
og hlýða hjarta á síðasta snúningi
Fylla æðarnar með eitri,
hlusta á hvera einustu frumu öskra eftir þér.
Leggjast til óendanlegs svefns
með lyktina af þér í nösunum.

Ég er fastur í yfirrómantískum ástarkomplex
Rósir, rauðvín, ráðabrugg
ljóð, loforð og losti.
Shakespear, súkkulaði, söngvar
Amor, Saffó og Plató.

Í dramatískum óraunveruleika sannrar ástar,
veltist ég um, þroskast og dafna,
hleyp í hringi, rausa og staðna.

Júlía hefur ekki komið og vitjað mín
og hvít línbrynjan sem vefur mér um sjálfan mig,
meinar mér að vitja ástmey minnar.

Ég dó fyrir Júlíu og drap fyrir ástina.
Hunsaði allt rökrænt, fyllti æðarnar með eitri
stóð útá svölum og ávarpaði vegfarendur,
en enginn af þeim, var Júlía.

Hún var látin, ekki af losta eða ást
einungis fyrir tímans sakir.
En í bólstruðum bústað mínum
er enginn tími, upphaf eða endir
aðeins tilbreytingalaus talandi og tóm tilvera.

Ég er fastur í fortíðinni
veltist um í foraði tímans.
Ástfanginn, síungur og ódauðlegur.

Með tilviljanakenndu millibili er ég færður út,
í traustu taki mjúklega dreginn um ganga
og lagður á leðurklæddan legubekkinn.
Orð streyma útúr mér, þau sömu og alltaf.
Veruleikafirrtur gleraugnaglámur með mikilmennskubrjálæði
situr á bakviðskrifborð og gerir vonlausa tilraun
til að sannfæra mig um að við séum staddir í 104 Reykjavík.

Aumingja maðurinn er svo blindur
getur ekki séð stræti Rómar.
Hann kennir ekki lyktina af vínberjum og ólífum,
heyrir ekki orð spekinganna og listgyðja.

Ég vil ekkert meira með hann hafa,
fyrirskipa undirmönnum mínum að færa mig aftur
til bústaðar míns í austurálmunni,
þar sem ég hef vetursetu, í klefa ástar og munaðar.

Ég er fastur í heimi skynvillinga í hvítum kyrtlum,
ekkert fær með hjálpað í biðinni nema svefn.
Og ég bíð eftir að vera vakinn
af ástmey minni,
Júlíu.