horfi
á bílana sem tæta upp malbikið
stari
á manneskjurnar berjast mót vindinum
glápi
á kumbaldana sem við eitt sinn reistum
og þrái
að allt muni hrynja, eyðast og hverfa…

líkt og úrhellið sem þekur þessa dimmu borg
streyma tárin innar og lita hjarta mitt grátt…
líkt og vindurinn sem skekur þessa köldu borg
feykist sálin mín til uns hún flýgur alltof lágt…

hatast
við peningana sem lita okkar líf
pissa
á skýjahallirnar sem vonir skópu
sparka
í þá spegilmynd sem ég er nú orðinn
og vona
að hún muni visna, deyja og hverfa…

líkt og sólsetrið sem gyllir þessa litlu borg
hverfa vonir mínar hratt og augun litast rauð…
líkt og næturnar sem kæla þessa daufu borg
kælir hugur minn hjartað uns sálin mín er dauð…

efast
um tilvist þess guðs sem launar erfitt líf
trúi
á svartnættið sem róar lúnar taugar
dreymi
um lífið sem var mér bæði kært og gott
og vona
að það muni koma, dvelja og verða…

líkt og óveðrið sem þreytir þessa lúnu borg
hefur lífið mitt sorfið för í mína hvarma…
en líkt og þegar lognið róar þessa sterku borg
finn ég vonandi aftur hamingju og varma…

og þegar vonin,
heit og mjúk,
yljar minni veiku borg,
vil ég einnig falla kaldur,
djúpt í hennar arma…


-Danni pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.