Hvít slæða liggur yfir borginni,
eins og líkklæði úr mjúku silki
hafi verið dregið yfir hana í nótt.

Þú gengur niður frosnar götur,
borgin er enn ekki vöknuð,
allir sofa djúpt í glaumi og gleði drauma sinna.

Inni á geðsjúkrahúsinu
sofa menn sem geta mælt á þig
spennitreyju með augunum,

séð þig fyrir sér
skoppa inni í bólstruðu herbergi
eins og skopparabolti í borðtennis.

Niður við höfnina
liggja ástfangin skip róleg,
kinn við kinn og einstaka koss.

Þú gengur niður frosnar götur,
borgin er enn ekki vöknuð,
núna er enginn inni á barnum.

Þar bíða bjórglös og flöskur
spennt eftir að það tekur að skyggja aftur
og einmana sálir í leit, koma á ný.

Allt um kring er hljótt,
æðasláttur borgarinnar heyrist enn ekki
og þú horfir yfir allt.

Þú gengur inn í þennan tímalausa, forna morgun.
Borgin er að vakna, hægt og hægt,
einstaka bílar ræskja sig og líða af stað.

Þú gengur inn í þennan nýfædda, tímalausa morgun.
Grandalaus gengur
og týnist.