“Megi vilji markaðarins
verða svo á jörðu sem á himni”
segja fótgönguliðar tortímingarinnar.

En þegar olían klárast er partýið búið,


Vextirnir, arðurinn, viðskiptavildin,
virðisaukinn, skuldirnar, lánin

þetta eru ímyndaðar tölur á pappír.

En tréin sem þurftu að falla svo frjálst flæði fjármagns fengi skjalastaðfestingu.
Þau voru ekta.

Fossarnir, skógarnir, fólkið,
fegurðin í klettunum.

Allt þetta er ekta.

Ekta fórnarlömb.

En frjálst flæði fjármagns hefur ekki tíma í fórnarlömb.
Þetta eru spennandi tímar.

Manngerðar náttúruhamfarir,
tölur á blaði,
sem segja til um

hvaða skógur fellur næst
hvaða klett skal næst sprengja
hvaða foss á að virkja næst

Ég hef fréttir!

Við erum næst!

Nú þegar reisa þeir víggirðingar utan um okkur.
Lénsveldið snýr aftur.

Í boði fjármagnsins.



Einhverstaðar í karíbahafinu er eyja með 30,000 íbúum og 500,000 fyrirtækjum.

Einhverstaðar í Kína eru 100,000 vinnumenn með 15 krónur á tímann.

Og á sama tíma er forstjóri í þessu sama karíbahafi á feitum starfslokasamningi.

Í boði fjármagnsins.



“Megi vilji markaðarins leiða okkur”
“Gef oss í dag vorn daglega auð”

En þegar olían klárast er partýið búið.

Spilaborgirnar eru ekki ekta frekar en fyrri daginn.

Pappírsblekkingar í pókerleik.

Við erum næst.

Tölur á blaði segja til um
hvaða hús skal taka,
hver fær að borða,
hver fær starf,
hver fær lyf

en fólkið er ekta.

Manngerðar náttúruhamfarir.

Skuldir heimilanna eru 150 milljarðar
Skuldir Icesave eru 600 milljarðar

Hálfs árs sukk jafnast á við allar fasteignir eyjunnar.
Og sukkið var ekki einu sinni verðtryggt.

En samt er sagt að við tókum öll þátt í þessu.

Jú kannski
Það voru flestir með í að byggja upp kerfið,
Allavega gagnrýndu fæstir pýramídann

En bara þrjátíu sátu á toppnum.
Flestir með typpi.



Í boði fjármagnsins
sem flæðir frjálst eins og hafið
upp við strönd karabískrar eyju.



En þegar olían klárast er partýið búið.

Þið vitið nefnilega að þeir grafa ekki fleiri olíur í Sádí arabíu.
Og í Írak er framleiðslan búin að ná hámarki.

Allt sem á sér upphaf á sér enda.

Næsta stoppistöð er ekki bara naflaskoðun,
ekki bara stjórnlagaþing,
ekki bara bloggpóstar
og lýðræðisvakning,
ekki bara nýfundin jafnréttisást,
ekki bara nýfundin frelsisást,

En á biðstöð kapítalismans er óþarfi að ræða smáatriði.
Við finnum aðra orkulind. Kvíðið engu, vísindamennirnir vinna dag og nótt.

Og Obama á stórt tékkahefti.



Vel á minnst vísindamennirnir.

Þegar eldfjallið sprakk og Pompeii grófst undir ösku
fórust allir mennirnir,
en hundarnir og kettirnir sluppu.

Þannig er það líka með vísindamennina. Þeir gelta á eigendur sína dag og nótt, en það er til einskis.

Og á meðan fyllist hafið af plasti.



Sólin skín á eyjunna þar sem fyrirtækin 500,000
skaffa íbúunum 30,000
engar tekjur.

En hvernig var það með bankanna 3
og íbúanna 300,000
nægar skuldir?

Hvernig fer það saman.
Eins manns skuld eru annars tekjur.
Fer þetta ekki allt saman í hring?

Hring eftir hring um hagkerfið?



“Trickledown” sagði Reagan.

Eins og snjótittlingar sem kroppa í brauðmola.
Þannig eiga listamenn, verkamenn, kennarar og læknar,
góðgerðarfélög og stofnanir,
að bíða þolinmóð

“Trickledown” sagði Reagan

bíða þolinmóð
víst munu brauðmolarnir falla
verið þolinmóð meðan snillingarnir hugsa.
Hugsa um lausnir á kreppunni.



Vel á minnst.

Þegar sköpuninni lýkur hefst tortímingin.

Þannig á kapítalisminn að virka.

Æ, synd að það séu ekki önnur kerfi í boði.

Nei, engin önnur kerfi í boði.

Við verðum að menga.

Við verðum að viðhalda ójafnrétti.

Annað er ekki hægt.

Það er ekkert annað í boði.

Það er ekkert í boði, nema það sé í boði fjármagnsins.

“Trickledown” sagði Reagan.

Og þegar olían klárast er partýið búið.