Ég horfi á eftir þér
niðurlægð(ur), svívirt(ur), dofin(n)
Með ósk um að þú hverfir,
að þú hafir jafnvel aldrei fæðst.

það væri gott ef þú lægir hér en ekki ég
á blautri, kaldri jörðinni
með gras á milli rasskynnana
með sál sem þarf tafaralausa endurlífgun.

Þú skildir ekkert eftir þig nema
Martraðir, hræðslu og sálarmorð.
(mundu mig) ég man þig
alla tíð og tíma.





Á ónefndum stað á íslandi er bar sem ber fram drykkinn “nauðgunarlyf”. Einu ári eldri frænka mín lýsti honum fyrir mér sem frábærum drykk þá sérstaklega ef þú værir peningasnauð, hann væri áhrifamikill, ódýr og vegna mikils áfengismagns yrðir þú fljótt hauslaus. Ég spurði hana svona af alvöru hvort hún sæi ekkert rangt við þetta og svaraði hún neitandi.

Þetta hefur setið lengi í mér eftir þetta og verið mér mikill hugarangur, hvar er siðferðið?

Það að orðið nauðgun breytist svo snöggt í annað orð yfir “skemmtun” veldur mér áhyggjum. Því hver sem hefur upplifað þá raun veit að svo er als ekki. Hvar er siðferðið þegar þú nefnir drykk þetta bara til að sýna áhrif hans en hugsar í raun ekki útí raunverulega merkingu orðsins, hvar er siðferðið þegar þú pantar þennan drykk og finst heldur töff að geta orðið full/ur á 5 mínútum fyrir núll og nix en áttar þig ekki á raunveruleikanum og alvarleikanum bakvið orðið nauðgunarlyf.
__________________________________