Þegar menn tóku upp á því að fikta við þetta ljóðaform bæði ensku og ítölsku sonnettuna þá brúkuðu þeir stuðla, reyndar eins og með öll önnur ljóðaform á þeim tíma.
Sonnettan er í rauninni bragarháttur. Auðvitað er hægt að yrkja með þessu formi án stuðla. Ég er hinsvegar hræddur um að þá bitni það á gæðunum.
Ef líkt er eftir íslenskum bragarháttum stuðlalaust þá verður það alltaf viðvaningslegt í augum þeirra sem unna forminu. Auðvitað er mönnum frjálst að yrkja eins og þeir vilja en að sama skapi mega þeir búast við því að kveðskapurinn verði ekki háttskrifaður meðal þeirra sem sækja í svona kveðskap.
Ef eftirfarandi kvæði er lesið upphátt þá má glöggt heyra hve gífurlega mikilvæg stuðlasetningin er til að ná fram réttum árherslum.
Ég bið að heilsa - Jónas Hallgrímsson
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.
Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.
;) Íslensku sonnetturnar eru margar mikið betri en þær ensku.