Skáldið og hafið
Ungt, fölt skáld gengur upp á klettinn. Köld alda skellur á hamarinn. Skáldið ávarpar hafið.
Skáld:
Hey þú haf sem klettastrendur lemur,
Hver er sá sem þína söngva semur,
og hví syngja þínar öldur svona
með saltri, djúpri rödd kæfðrar vonar?
Ég fæ hroll af því að hlusta á þig
ef heyri öldurnar öskra á mig.
Þeir sem dauðir í djúpunum liggja,
dreymir þeim um að aftur land byggja
eða sofa þeir svo vel á botni,
að þeir sig telja í vist hjá drottni?
Láttu öldur þínar frá þeim segja
sem í þínum val urðu að deyja.
Þú sem brýtur báta jafnt sem kletta
og borðar fjöllin án þess að mettast.
Hafið svarar:
Jæja skáld sem þykist geta skapað,
þú skyni þínu mér sýnist hafa glatað.
Þykist þú geta ávarpað heilt haf
og haldið í burtu lifandi af?
Skáldið:
Hey þú haf sem bárur lætur gala
heyr mig og leyfðu þeim svo að tala.
Seg þú mér hvað djúpum þínum dreymir
og hvaða drauga magi þinn geymir,
og þá skal ég ekki mana þig meir
og munninum loka þar til ég dey.
Hafið:
Hve marga menn hef ég étið og gleymt,
hversu mörg leyndarmál gæti ég geymt.
Ég þekki engan sem vogaði sér
að krefjast svara og standa hjá mér.
Þú sem vogaði sér að vekja mig
veltu nú fyrir þér, hvernig fær þú grið?
Skáldið:
Ég er ekki merkur það veit ég vel
von mín er sú að þú miskunnir mér.
Ég veit að þú hefur hirt marga menn
hvað græðir þú svo sem á einum enn?
Leyfðu mér að heyra þín leyndarmál,
ég skal lofa með kvæði þína sál.
Hafið:
Hafið hefur ekki gagn af kvæðum.
Hvað á ég að gera við lofræður?
Ef þú vilt vita allt sem ég veit
þá verðurðu að eiga blautan reit.
Þú verður að stökkva, sökkva sjálfum þér,
þá skaltu heyra mun meira frá mér.
Farðu nú í burtu og þiggðu frið,
fyrir hugrekki þitt gef ég þér grið.
Þú getur sagst hafa ávarpað haf,
og haldið í burtu lifandi af,
en með sögur mínar gengur enginn burt,
þær mega ei rata upp á land þurrt.
Kórus:
Það gerðist þá!
Skáldið og hafið…
Þeir tókust á!
Skáldið og hafið…
Það gerðist þá!
Skáldið og hafið…
Þeir tókust á!
—
Ljóð samið í norskum firði á eyju er Snæbjörn stóð upp á klettabrún og starði fram á hafið. Hann skráði fyrstu línurnar við arineld með rauðvínsglas í hendi.
Það var á afmælisdag hans, þann 30 Nóvember.